132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Geðheilbrigðisþjónusta barna og unglinga.

[16:05]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Heilsugæslan er sá grunnur sem á að byggja nærþjónustuna á. Því er mikilvægt að efla starfsemi hennar með fleiri starfsgreinum, þverfaglegri vinnu og samvinnu við skóla- og félagsmálayfirvöld, enda fannst mér vera samhljómur hjá okkur hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra. Þá kallar maður eftir meiri viðbrögðum í yfirlýsingum og ræðum þar sem þetta er samkvæmt heilbrigðisstefnu stjórnvalda, bæði í lögum og eins í yfirlýsingum fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra án þess að því hafi verið fylgt eftir.

Í hverju samfélagi, sveitarfélagi eða heilsugæsluumhverfi höfuðborgarsvæðisins þarf að vera til staðar þverfaglegt teymi sem fólk, foreldrar og börn, kennarar og aðrir, geta leitað til þegar geðrænn vandi kemur upp. Ég tel að nú sé nóg komið af skýrslum, þær leiða í ljós að þetta sé það sem við eigum að byggja á. (Gripið fram í.) Við erum búin að gera greiningu eftir greiningu, skýrslu eftir skýrslu, greiningarnar eru svipaðar, úrlausnirnar eru mjög svipaðar og nú er komið að því að fara að vinna. Til þess þarf fjármagn og það töluvert fjármagn og það þarf líka vinnu í hinum mismunandi ráðuneytum, vinnu sem unnin er af einlægni og vilja til að ná þessu fram. Það má ekki stranda á fjárlögum eða beita þeim fyrir sig svo allt stöðvist af.

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra nefndi hér tvo hópa sem sérstaklega þyrfti að huga að, hún nefndi ekki hvaða hópar það væru en ég tel að sérstaklega þurfi að horfa til framhaldsskólanema, þeir vilja oft falla milli stafs og hurðar eða milli kerfa, og svo er annar hópur sem eru unglingar í fíkniefnaneyslu. Staða þeirra er mjög erfið, af öllum erfiðum (Forseti hringir.) er staða þeirra hvað verst.