132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Almenn hegningarlög.

365. mál
[16:44]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það mál sem hér er til atkvæðagreiðslu er þess eðlis að það hefur í rauninni fengið mikinn stuðning. Það skref sem hér er stigið hefur verið stutt af flestum ef ekki öllum þeim aðilum sem um það hafa fjallað og sú tillaga sem felst í frumvarpinu nýtur jafnframt stuðnings þeirra hv. þingmanna sem um það hafa fjallað, bæði í nefnd og hafa tekið til þess afstöðu í umræðum.

Ég er ósammála hv. 10. þm. Reykv. s., að hér sé um að ræða hænuskref. Ég held að þetta sé mikilvægt mál. Í því felst mikilvæg heimild fyrir dómara til þess að líta til náinna tengsla brotaþola og geranda í brotum af þessu tagi, gefur dómara tilefni til þess að beita þyngri refsingu þegar sá trúnaður er brotinn sem felst í þessum nánu tengslum. Þess vegna held ég að þetta sé mikilvægt mál. Í því felst líka, og í afgreiðslu þess, sterk vísbending um það hversu alvarlegum augum löggjafinn lítur brot af þessu tagi.

Það er rétt sem hv. 10. þm. Reykv. s. benti á, það eru skiptar skoðanir um það hversu langt eigi að ganga í þessum efnum, þ.e. hvaða úrræði séu virkust til að berjast gegn heimilisofbeldi. Menn eru sammála um þau markmið að löggjafinn og stjórnvöld verði að taka fast á þessum málum. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er auðvitað bara hluti af þeim aðgerðum sem eru í gangi í því sambandi og má minna á að í stjórnsýslunni hafa af hálfu lögreglunnar verið settar nýjar verklagsreglur sem ég bind miklar vonir við að muni skila betri árangri í þessum málum. Auðvitað er þetta mál ekki einangrað, það er liður í aðgerðum til þess að vinna gegn heimilisofbeldi en á hinn bóginn hafa vissulega verið skiptar skoðanir um það hvort æskilegt væri, eða jafnvel tækt inn í hegningarlögin, að setja sérstakt heimilisofbeldisákvæði af því tagi sem hv. þingmaður vísaði til. Ég tel að sú athugun sem fram hefur farið af hálfu refsiréttarnefndar, og farið hefur verið vandlega yfir og rætt nákvæmlega í allsherjarnefnd, gefi ekki tilefni til að setja slíkt ákvæði inn í löggjöfina á þeirri forsendu að refsiákvæði verða að vera skýr, refsiheimildir í lögum verða að vera skýrar og þær hugmyndir sem uppi hafa verið um ákvæði af þessu tagi hafa ekki falið í sér nægilega skýra verknaðarlýsingu og þar með ekki nægilega skýra refsiheimild til að það mundi falla inn í hegningarlög okkar að setja (Forseti hringir.) það inn.