132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Landmælingar og grunnkortagerð.

668. mál
[00:38]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í því hlutafélagafári sem gengur yfir þessa stundina liggur við að maður undrist að hæstv. umhverfisráðherra skuli ekki leggja það til í þessu frumvarpi að Landmælingar Íslands verði hlutafélagavæddar. (Gripið fram í.) Það er hún ekki að gera heldur er verið að leggja það til að Landmælingar Íslands verði dregnar út úr samkeppnisrekstri og svona tæknilega séð má í sjálfu sér alveg fella sig við það að slíkur framgangsmáti skuli hafður og það skuli viðurkennt að það sé í almannaþágu að Landmælingar Íslands séu og verði áfram stofnun í eigu ríkisins. Það er auðvitað rétt sem kemur fram í ábendingu frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að næsta mál á dagskrá eða þarnæsta mál á dagskrá um Landhelgisgæslu Íslands kemur sennilega til með að vekja meiri umræðu en þetta mál.

Hins vegar langar mig til að gera hér örfáar athugasemdir, frú forseti, vegna þess sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Það er alveg ljóst að Landmælingar Íslands hafa á undanförnum árum haft á sér af hálfu löggjafarsamkundunnar verulega kröfu um sértekjur og stofnunin hefur einatt kvartað undan því að erfitt sé fyrir hana að ná upp í þessar sértekjur, eins og reyndar margar aðrar ríkisstofnanir. Ég veit ekki hvort Landmælingar hafa kvartað hærra eða jafnvel minna en aðrar af því að þær hafa auðvitað staðið sig mjög vel í að selja afurðir sínar, sín kort. En eitt af því sem ríkisvaldið hefur staðið fyrir er að stofnuninni hefur verið gert að vera á samkeppnismarkaði, að framleiða vöru sem skilar umtalsverðum sértekjum inn í sjóði stofnunarinnar, til þess að standa undir verulegum hluta af þeirri starfsemi sem er lögbundin sem varðar grunnkortagerðina.

Nú langar mig til þess að fá að heyra það frá hæstv. umhverfisráðherra að gert sé ráð fyrir því að Landmælingar fái þá fjármuni sem til þarf til að standa vel að verki varðandi skráningu sem nauðsynleg er fyrir þá grunnkortagerð sem áfram verður lögbundið verkefni Landmælinga Íslands. Ég held að yfirlýsing um það hljóti að verða að koma frá hæstv. umhverfisráðherra við 1. umr., að tryggt sé að þannig verði að verki staðið að Landmælingar Íslands fái þá fjármuni sem til þarf til þess að standa undir lögbundnu hlutverki. Samkvæmt fylgiskjali með þessu frumvarpi frá fjármálaráðuneytinu, fjárlagaskrifstofu þess, kemur fram að verkefni Landmælinga séu skýrð og einfölduð, það kemur fram að stofnunin hverfi af samkeppnismarkaði og að gert sé ráð fyrir að hún gæti áfram hagsmuna ríkisins á sviði höfundar- og afnotaréttar á öllu því efni sem stofnunin hefur eignast, unnið eða gefið út í sambandi við mælingar, kort eða myndir af Íslandi. Sömuleiðis kemur fram að áfram sé gert ráð fyrir því að stofnunin geti aflað sér tekna á þann hátt sem verið hefur, þ.e. með sölu á afnotum af þessu efni, enda má þá gera ráð fyrir því að það verði sérhæfðari þjónusta að einhverju leyti og ekki eins mikil sala á vörum sem keppa á markaði við samkeppnisaðila sem skapa sértekjurnar. Hins vegar munu áfram koma einhverjar sértekjur fyrir sölu á þjónustu og fyrir afgreiðslu á þeim gögnum sem framleidd eru.

Áhrif frumvarpsins, eftir því sem fjármálaráðuneytið kemst að niðurstöðu um á kostnað ríkissjóðs, koma fram með þeim hætti að Landmælingar Íslands hverfa af samkeppnismarkaði og þar með er áætlað að þar verði stofnunin af 20 millj. kr. sértekjum á ári en á móti falli niður beinn kostnaður við samkeppnisreksturinn og fjárlagaskrifstofa gerir ráð fyrir því að fjárhagslegt tap stofnunarinnar vegna þessara breytinga verði metið á 6 millj. kr. á ári. Það er gert ráð fyrir að því verði mætt innan útgjaldamarkmiða langtímaáætlunar og ég hef ástæðu til þess að óttast að þessi umsögn fjárlagaskrifstofu sé ekki fullnægjandi fyrir stofnun sem þarf að sinna jafn umfangsmiklu hlutverki og kortagerðin er, grunnkortagerðin og rannsóknirnar og tæknin sem til þarf er auðvitað fjárfrekur þáttur þannig að ég held að það hljóti að þurfa að viðurkenna það hér við 1. umr. að stofnunin verði ekki verr sett en áður við þessa breytingu.

Ég verð að segja það líka, frú forseti, að mér finnst orðalagið sem kemur fram í frumvarpinu og lýtur að skilgreiningum verkefnanna í 4. gr. nokkuð óljóst. Í greinargerðinni er sagt að verkefni Landmælinga Íslands skv. 4. gr. muni þýða að stofnunin dragi sig út úr þeim rekstri sem nú telst vera samkeppnisrekstur.

„Með þessu ætti að draga úr núningi við einkafyrirtæki,“ segir í greinargerðinni, með leyfi forseta, og áfram: „og álitamálum sem gætu komið til kasta samkeppnisyfirvalda. LMÍ mun hins vegar tryggja að veigamiklum grunnverkefnum sé sinnt, sem ekki er víst að markaðurinn muni sjá sér hag í að sinna. Hins vegar geta einkafyrirtæki og aðrir aðilar komið að vinnu við slík grunnverkefni eða einstaka þætti þeirra.“

Ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst þetta nokkuð loðið orðalag í skilgreiningunum eða skýringunum með frumvarpinu og ekki vera alveg ljóst af þeim töluliðum sem taldir eru upp í 4. gr. hver þessi grunnverkefni nákvæmlega eru og hvernig megi vita að þar séu á ferðinni verkefni sem ekki sé víst að markaðurinn muni sjá sér hag í að sinna. Ég spyr hæstv. umhverfisráðherra: Gæti sú staða ekki komið upp að eitthvert einkafyrirtæki ákveddi að það væri tilbúið eða í stakk búið til að sinna einhverjum þáttum sem taldir eru upp í 4. gr. og þar með væri um leið kippt ákveðnum stoðum undan starfsemi Landmælinga Íslands? Ég óttast að þetta geti í sjálfu sér orsakað að einkafyrirtækin geti sótt á enn frekar en orðið er og jafnvel seilst inn á þetta verksvið og inn í þau verkefni sem þó virðast vera áskilin með 4. gr. Við vitum að einkafyrirtæki úti á markaði hafa gert kröfu um að Landmælingar Íslands verði einkavæddar og seldar. Það hafa komið fram yfirlýsingar frá einkaaðilum sem telja sig geta sinnt öllum þessum hlutverkum og þar af leiðandi er full ástæða til að óttast að núningurinn geti haldið áfram og kröfur einkaaðila og ásælni í þessi verkefni haldi áfram og geti haldið áfram að veikja Landmælingar Íslands.

Frú forseti. Þetta eru hugleiðingar mínar við 1. umr. og hæstv. umhverfisráðherra og við í umhverfisnefndinni þurfum auðvitað að fara vel yfir þessa þætti og það er eins og ég segi helst það sem lýtur að skilgreiningunum í 4. gr. og það sem lýtur að fjármálum stofnunarinnar sem ég er hugsi yfir nú við 1. umr.