132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Landhelgisgæsla Íslands.

694. mál
[01:42]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra er alltaf dálítið spaugsamur. Ég innti hann eftir þátttöku í hernaði og árásarstríði í Írak og Afganistan og þá talar hann um friðaraðgerðir. Ég er í sjálfu sér ekkert á móti því að Landhelgisgæslan komi að því að stuðla að friði á hafsvæðinu í kringum landið en ekki hernaði.

En varðandi hlutafélagavæðinguna þá vil ég bara í andsvari vara við þeirri nálgun sem kemur fram í orðum hæstv. ráðherra um einkavæðingu á þessum þáttum öryggismála. Þó að hæstv. ráðherra geti tínt til einhver ríki sem hafa glapist út á þá stigu með einhverja þætti þá hygg ég að þau séu fleiri sem gera það ekki. Ef við lítum t.d. til Bandaríkjanna held ég að þar sé ekki mikið um einkavædda öryggisþjónustu hvað viðkemur þjóðaröryggi. En hvort sem svo er eða ekki þá vil ég vara mjög eindregið við þeirri nálgun.

Úr því að við erum að ræða stöðu Landhelgisgæslunnar þá gæti hæstv. ráðherra kannski upplýst okkur um hvað gert hefur verið í hinum mikla fjárhagsvanda sem Landhelgisgæslan stendur frammi fyrir, bæði hvað varðar rekstur skipa og ekki hvað síst rekstur flugvélanna. Þyrlurnar hafa staðið óhreyfðar og ekki hefur verið hægt að vinna eðlilega við viðgerð eða skoðun á þeim vegna fjárskorts svo það hefur jafnvel ógnað því öryggi sem þær eiga að geta tryggt.