132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Viðræður í varnarmálum.

[12:10]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hafa forustumenn ríkisstjórnar Íslands misst málið? Hér hefur leiðtogi stjórnarandstöðunnar beint alvarlegum spurningum um öryggismál Íslands á hinu háa Alþingi til hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra og annaðhvort hafa þeir misst málið eða hvorki Geir Haarde né Halldór Ásgrímsson treysta sér til að tjá sig um málið sem hlýtur þá að endurspegla þann vandræðagang sem er á milli þeirra í því öllu. Enda stangast yfirlýsingar þeirra á og virðist ekki ein stefna uppi í ríkisstjórninni.

Þannig segir Halldór Ásgrímsson okkur að ekki sé útilokað að segja upp varnarsamningnum meðan hæstv. utanríkisráðherra beitir þeirri ótrúlegu samningatækni að lýsa því yfir á fundi sjálfstæðismanna á Akureyri að við Íslendingar eigum engra kosta völ annarra en samstarf við Bandaríkin. Við hljótum að undrast það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að einangrast í varnar- og öryggismálum Íslands og spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvernig hann haldi á stöðu Íslands í þessum viðræðum þegar hann í upphafi þeirra lýsir því yfir opinberlega að okkur sé nauðugur einn kostur að taka þeim samningum sem Bandaríkjamenn bjóða okkur því við eigum engra kosta völ. Ég skil það vel að hæstv. forsætisráðherra sjái sig knúinn til þess að gefa þá þegar út opinbera yfirlýsingu þvert á yfirlýsingar hæstv. utanríkisráðherra um að því sé ekki þannig farið heldur komi vissulega til greina að segja varnarsamningnum upp, enda hlýtur hæstv. forsætisráðherra að reyna að tryggja að landið hafi þó einhverja samningsstöðu í þeirri neyðarlegu aðstöðu sem það er þegar bandaríska sendiráðið færir því 200 bækur um varnar- og öryggismál í staðinn fyrir herinn sem er að fara burt.