132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Stefna í málefnum barna og unglinga.

[16:17]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Athafnaleysi hæstv. forsætisráðherra og viðvarandi niðurskurður á barnabótum og öðrum stuðningi við fjölskyldufólk lýsir auðvitað sinnu- og áhugaleysi eins og ræða hæstv. forsætisráðherra sjálfs um þetta efni fyrr í umræðunni.

Hvernig er þessu máli varið? Það er þannig að á síðustu öld, fyrir meira en áratug, sagði umboðsmaður barna með skýrum hætti að við værum langt á eftir nágrannaþjóðum okkar að því leyti að við hefðum enga stefnu eða framkvæmdaáætlun í málefnum barna og ungmenna og úr því yrði að bæta. Síðan eru liðin 11 ár og enn kemur hæstv. forsætisráðherra án þess að framkvæmdaáætlun liggi fyrir. Þó vitum við öll að ef okkur er alvara í málaflokki, t.d. virkjunum og stóriðju, sem ætti að vera nærtækt hæstv. forsætisráðherra, þá gerum við framkvæmdaáætlun um hvernig ná eigi árangri.

Þessu máli hefur verið hreyft í þinginu í sjö ár. Það eru fimm ár síðan það var samþykkt en það var fjögur ár í einni nefnd. Hún skilaði drögum að stefnu. Nú hefur það verið í heilt ár í nefnd hjá Birni Inga Hrafnssyni, formanni fjölskyldunefndarinnar og aðstoðarmanni Halldórs Ásgrímssonar. En Björn Ingi Hrafnsson er enn ekki kominn með neina framkvæmdaáætlun fyrir ríkisstjórnina í málefnum barna.

Við hljótum auðvitað að kalla eftir því að oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, sem býður sig fram til að sinna brýnustu hagsmunamálum barna og ungmenna í skólum og leikskólum, skili þessu verki áður en kemur að kosningum. Hæstv. forsætisráðherra sagðist hafa áhuga á að ræða þessi mál og þá hlýt ég að spyrja hann hvers vegna hann er ekki búinn að skila mér skýrslu (Forseti hringir.) um fátækt og félagslega stöðu barna sem honum bar að skila (Forseti hringir.) samkvæmt reglum þingsins þegar í janúar. (Forseti hringir.) Hann er kominn marga mánuði fram yfir (Forseti hringir.) með það. Ég hlýt að biðja hæstv. (Forseti hringir.) forseta að sýna mér biðlund meðan ég rukka hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) um skýrslu sem honum ber að vera búinn að leggja fram í (Forseti hringir.) þinginu og spyr (Forseti hringir.) hvenær sé von á henni og hvort hann muni ræða hana hér.

(Forseti (DrH): Ég bið hv. þingmann að taka tillit til annarra ræðumanna og virða tímamörk.)