132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Framhaldsskólar.

711. mál
[21:07]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns hlýt ég að fagna því að hæstv. ráðherra hafi ákveðið að láta af því að halda til streitu framkvæmd samræmdra stúdentsprófa í framhaldsskólum. Þetta hefur verið baráttumál okkar samfylkingarmanna í langan tíma og við hljótum auðvitað að fagna því að nú sé að verða að veruleika að framkvæmd samræmdra stúdentsprófa verði aflögð.

Eins og ég sagði höfum við í Samfylkingunni barist gegn þessum samræmdu stúdentsprófum í langan tíma, fyrst árið 2003 þegar hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, sem þá var varaþingmaður, tók málið upp við þáverandi ráðherra menntamála, Tómas Inga Olrich, og krafðist þess að framkvæmd prófanna yrði a.m.k. frestað, ef ekki hætt við hana alfarið. Þetta var í febrúar 2003. Þá sagði ráðherrann nei, það kæmi ekki til greina. Allar götur síðan þar til nú hafa ráðherrar Sjálfstæðisflokksins haldið til streitu framkvæmd samræmdu stúdentsprófanna. Við hljótum auðvitað að fagna því að nú hafi loksins verið hlustað á okkur eftir allan þennan tíma. Við fórum í fundarferð í framhaldsskólana á vordögum 2003, það er gaman að segja frá því í þessari umræðu, þar sem við mótmæltum þessum samræmdu stúdentsprófum. Nú er þetta orðið að veruleika.

Virðulegi forseti. Ég vona að þetta sé upphafið að því að Sjálfstæðisflokkurinn fari að sýna það í verki að hann ætli að láta af þeirri miðstýringaráráttu sem hann hefur sýnt í framhaldsskólunum, bæði með þessari framkvæmd á stúdentsprófum og eins því sem hefur birst okkur í hugmyndum um skerðingu á námi til stúdentsprófs.

Eins og hæstv. ráðherra kom réttilega inn á í ræðu sinni sýndi auðvitað framkvæmd þessara prófa að þau áttu engan veginn heima í framhaldsskólunum eins og þau voru. Háskólarnir sáu ekki ástæðu til að taka tillit til þeirra þar sem gert er ráð fyrir mismunandi og fjölbreyttum inntökuskilyrðum milli deilda. Sömuleiðis var augljóst að með þessum prófum væri verið að fara í það far að hér yrðu á endanum afar einsleitir skólar á framhaldsskólastigi.

Virðulegi forseti. Ég vil í lokin segja að við eigum að byggja framhaldsskólana þannig upp að hér verði fjölbreyttir skólar. Ég skora á Sjálfstæðisflokkinn og hæstv. menntamálaráðherra að gera gangskör að því að láta af miðstýringaráráttu í fleiri þáttum á framhaldsskólastigi og í skólakerfinu öllu um leið og ég fagna því að þessu baráttumáli okkar samfylkingarmanna sé loksins svarað með svo jákvæðum hætti sem raun ber vitni með þessu frumvarpi.