132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Jarðalög.

739. mál
[21:25]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki ætla ég að núa hæstv. landbúnaðarráðherra um nasir þeim örlögum sem Framsóknarflokkurinn horfist nú í augu við. Hann á sennilega sístan þátt í þeim. En ekki undrar mig að hæstv. landbúnaðarráðherra skuli vera í flokki sem er að tapa fylgi sínu á landsbyggðinni meira en áður þegar hann fer í fylkingarbrjósti þeirra sem vilja leggja af óðalstignina. Ég er hissa á því. Aldrei átti ég von á að þessi hæstv. ráðherra mundi gera það en lengi skal manninn reyna. Það kann að vera í takt við tímans flaum og kannski er ekkert sem getur snúið því, það kann að vera rétt hjá hæstv. ráðherra.

Ég varð hins vegar fyrir meiri vonbrigðum varðandi svar hæstv. ráðherra við síðari spurningu minni. Við vitum að það er fólk sem fer um landið í krafti nýfengins auðs og kaupir upp jarðir. Sjálfsagt er að menn geri það og sjálfsagt er að gleðjast yfir því að landspildur bænda skuli verðmætari en áður. En þetta er gert beinlínis í þeim tilgangi að festa sér hlunnindi og ekki til að byggja upp, í fæstum tilvikum. Við höfum dæmi um það, sem við höfum lesið um í blöðum, að menn séu að kaupa upp fjölmargar jarðir og gætu aldrei staðið undir þeirri kvöð að byggja þær upp þótt sumir geri það í einstökum tilvikum.

Þó að ég hafi glaðst yfir verðþróun varðandi jarðnæði bænda, sem gerir þeim auðveldara um vik að bregða búi ef svo fer, er þróunin mér ekki að skapi. Hún veldur því að jarðir komast í hendur manna sem ætla sér ekki að rækta jörðina eða byggja þar neitt sérstakt upp, manna sem t.d. eru að slægjast eftir því að eignast vatn, en hæstv. ráðherra beitti sér fyrir því með öðrum ráðherrum að nýtingarréttur á vatni var gerður að séreignarrétti. Þar með voru búin til hlunnindi sem verða verðmæti í framtíðinni. Þetta er ástæðan.