132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Starfsáætlun þingsins.

[13:18]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Satt best að segja hélt ég sem einn af nýliðunum á þingi að ég væri nánast einn um þá skoðun að þinghald gengi hér ekki nógu vel fyrir sig en miðað við umræðuna í dag er nokkuð ljóst að svo er ekki. Að minnsta kosti virðist stjórnarandstaðan almennt vera sammála um ákveðna óreglu á þinghaldi og er það mjög slæmt. Ég verð að viðurkenna að þetta kemur mér mjög mikið á óvart, að hér á hinu háa Alþingi skuli menn ekki hafa hlutina, hafa starfið, starfsáætlunina, í fastari skorðum. Ég átti von á meiru en það er annað sem ég hef lengi velt fyrir mér og mér finnst endurspeglast svolítið í dag í umræðunni, þetta svokallaða ráðherraræði. Ég get því miður ekki séð, frú forseti, að hér sé það löggjafarvaldið sem ráði, hinn almenni þingmaður eða þingmeirihluti. Fyrst og fremst virðist þetta vera spurning um ráðherrann, hann virðist ákveða hvað er tekið fyrir, hvenær og hvernig, hvað má ræða og hvað ekki. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það afskaplega einkennilegt og mun taka það fyrir nánar síðar á þessu þingi.

Ég tek undir með þeim sem hafa kvartað yfir að ekki skuli vera fyrirspurnadagur í dag. Samkvæmt dagskrá hefði hann einfaldlega átt að vera. Það er afskaplega svekkjandi fyrir okkur nýliðana að það skuli ekki haldið þar sem okkur gefst tækifæri þar til að eiga orðastað við ráðherra um hin ýmsu mál sem brenna á okkur og einnig á almenningi. Hér liggja fyrir margar góðar fyrirspurnir, þar á meðal ein um hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ, fyrirspurn sem kom upp hjá þeim er hér stendur eftir áskorun frá Kvenfélagi Mosfellsbæjar, Salome Þorkelsdóttur og fleirum. Jafnframt átti ég á síðasta fyrirspurnadegi, frú forseti, orðastað við heilbrigðisráðherra þar sem kom í ljós það sem þingmenn óttast oft, að ráðherraræðið er algjört, m.a. að því leyti að þrátt fyrir að hér séu samþykkt … (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Hv. þingmaður er að tala um fundarstjórn forseta.)

Já, ég er að gera það, frú forseti. Það kom í ljós við fyrirspurn um daginn að skýrslu sem unnin var fyrir þingið var einfaldlega stungið undir stól. Það var skýrsla um geðraskanir barna og unglinga og það, frú forseti, finnst mér gjörsamlega ótækt, það vald sem ráðherrann hefur. (Forseti hringir.)