132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Dagskrá fundarins.

[10:58]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til að þessi mál verði tekin til frekari umræðu á þingi. Þetta eru mál sem brenna á og falla undir þann dagskrárlið sem við höfum verið með um utandagskrárumræður. Ég held við ættum að óska eftir að slík utandagskrárumræða yrði tekin hér upp.

En ég vildi samt byrja á að óska virðulegum forseta gleðilegs sumars, starfsmönnum Alþingis og hv. þingmönnum, með þakklæti fyrir veturinn og samstarfið í vetur.

Það er hins vegar ekki góð byrjun á sumarstarfi þingsins það samráð sem hefur verið um fyrirkomulag á dagskrá hér. Ég vil fyrir hönd okkar í Samfylkingunni mótmæla því að til að mynda dagskráin í dag sé ekki í nokkru samráði við þingflokksformenn. Við höfum ekki rætt um að þau þrjú mál sem eru á dagskrá, önnur ekki, komi hér inn. Við höfum þvert á móti óskað sérstaklega eftir að mál sem þurfi m.a. að afgreiða frá hæstv. félagsmálaráðherra, nauðsynlegt að koma þeim út til umsagnar, verði tekin á dagskrá. En þau eru ekki á dagskrá í dag.

Hér eru tiltölulega umdeild mál og ekki síst það mál sem nú á aftur að hefjast umræða um, þ.e. RÚV. Það er alveg ljóst að það er vaxandi ágreiningur um það mál, ekki bara hér í þingsölum heldur líka úti í þjóðfélaginu og meðal starfsmanna RÚV. Það hafa vaknað svo margar spurningar í þessari umræðu.

(Forseti (SP): Hv. þingmaður er að tala um fundarstjórn forseta og á ekki að ræða efnislega um það frumvarp sem er á dagskrá.)

Það er ekki efnisleg umræða um frumvarpið. Ég er aðeins að óska eftir að hæstv. forseti beiti sér fyrir að þetta mál komi aftur inn til menntamálanefndar. Þannig að þeir þingmenn sem hér hafa staðið með málefnalegar umræður og sett fram spurningar fái fund í menntamálanefnd til að þeim spurningum sé svarað. Það snýr að fundarstjórn forseta.

Fundur með formönnum þingflokka hefur verið boðaður nú kl. 1 og við munum að sjálfsögðu, virðulegi forseti, fara fram á að þessi umræða verði stöðvuð og haldinn verði fundur í menntamálanefnd í það minnsta milli 2. og 3. umr.