132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Dagskrá fundarins.

[11:42]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég náði ekki í fyrri ræðu minni að fara yfir það mál sem kannski er stærst sem snýr að þessu þar sem ég þurfti að gera miklar athugasemdir við fullyrðingar sem hér komu fram varðandi störf í menntamálanefnd. Það hefur nokkuð verið rætt um vald forseta og er eðlilegt að það sé gert undir þessum dagskrárlið. Það efast enginn um vald virðulegs forseta yfir störfum þingsins og skipulagi þess. Hins vegar snýst þetta að sjálfsögðu um það hvernig með það vald er farið. Ákveðnar hefðir hafa skapast í því að samráðsferli sé í gangi þegar verið er að skipuleggja dagskrá þingsins, ég tala nú ekki um lok þingsins, og taka mið af starfsáætlun þess. Þegar starfsáætlun er þar að auki tekin úr gildi hlýtur að vera enn meiri ástæða til samráðsins.

Því miður upplifir maður ástandið núna eins og þetta sé hjá litlum börnum sem ekki hafa þroska til að ræða saman og ræða sig niður á samkomulag. Það er algjörlega óþolandi að þinghaldinu sé þannig fram haldið (Gripið fram í: Litlum börnum, já.) þannig að það er eðlilegt að gera þá kröfu að þessi samráðsvettvangur forseta með þingflokksformönnum sé nýttur til hins ýtrasta til að koma þinghaldinu í eðlilegan farveg.

Frú forseti. Það var mun algengara fyrr á árum að gert væri hlé á þingfundum til að halda fundi með þingflokksformönnum til að leysa úr slíkum vanda. Það verður að segjast eins og er, frú forseti, að ég held að þann sið ætti að taka upp aftur. Það leysir ekkert mál að halda málum svo til streitu eins og hér hefur verið gert af virðulegum forseta. Það er alveg ljóst og hefur verið margítrekað að það mál sem hér er stöðugt sett á dagskrá er þess eðlis að það er eðlilegt að um það sé gífurlega mikil umræða, m.a. vegna þess að í nefndinni var ekki gefinn tími til að fara eðlilega yfir málið, og kanna hvort einhverjir samkomulagsfletir væru á þessu mikilvæga máli. Til þess var ekki gefinn tími og þess vegna lá algjörlega fyrir að í þingsalnum þyrfti að fara fram mikil umræða. Það virðist sem svo sé einnig í samfélaginu, að þessi umræða sé nú mjög að magnast og það gæti m.a. verið skýring á hinni miklu ókyrrð og þrákelkni að halda þessu máli stöðugt á dagskrá og að því er virðist hvort sem það er með orðum eða óbeinum hótunum um að það verði hér á dagskrá þar til umræðu er lokið.

Virðulegur forseti. Ég minni á ágæt vinnubrögð virðulegs forseta varðandi annað frumvarp sem hér var í hnút í þinginu fyrir nokkru síðan, ef ég man rétt frumvarp um jarðrænar auðlindir, sem virðulegur forseti beitti sér fyrir að væri aftur tekið inn í nefndina. Og hver varð lausnin á því? Jú, það liðkaði fyrir öllu saman þannig að ég held að (Forseti hringir.) virðulegur forseti ætti að íhuga það að gera slíkt hið sama varðandi það mál sem hér er á dagskrá á eftir.