132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Dagskrá fundarins.

[11:45]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég hef tekið eftir því í þessari umræðu að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins undra sig á því að þingmenn úr liði stjórnarandstöðunnar skuli koma hér og óska eftir því að fá vitneskju um hvernig halda eigi á því máli sem er til umræðu síðar í dag. Það mál er ákaflega umdeilt. Þeim finnst það alger óþarfi og vísa til þess að innan stundar verði haldinn fundur með formönnum þingflokka og forseta.

Frú forseti. Sá fundur var auglýstur úr forsetastóli, ef ég man rétt, á þriðjudag eða miðvikudag. Það er með ólíkindum, þegar komið er svo nálægt þinglokum og jafnmörg mál eru óafgreidd og jafnmikið uppnám er í þingstörfum og nú er, að menn skuli leggja fram starfstilhögun af þessu tagi. Hér er mál sem er umdeilt, mál sem stjórnarandstaðan hefur ákveðnar óskir um, og ekki er leitað eftir þeim óskum fyrr en eftir nokkra daga.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði í ræðu sinni fyrr á þessum morgni, efnislega orðaði hann það svo, að það væri óðagot af stjórnarandstöðunni að vilja ekki bíða eftir fundi sem yrði síðar í dag. (Gripið fram í: Ha?) Ég sagði að efnislega hefði það verið þetta sem hv. þingmaður sagði. Hann kann að hafa sagt það með öðrum orðum og gefið það tryggilega til kynna með frammíköllum — skjálftinn í taugakerfi þingmannsins yfir stöðu mála virðist hafa heltekið hann. En ég verð að segja og taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það er sérkennileg stjórn á þingi þegar ekki er gerður reki að því að setjast með stjórnarandstöðunni á tímum eins og þessum heldur er fundur settur marga daga fram í tímann. Mér finnst það skrýtið. Mér finnst það skrýtið með tilliti til þess að hér hófst fundur kl. 10.30 og það hefði verið í lófa lagið að hafa fund með formönnum þingflokka fyrir þann tíma.

Síðasta miðvikudag hófst fundur á hádegi, klukkan tólf, og mönnum hefði verið í lófa lagið að hafa fund þann morgun áður en nefndarfundir hófust til að ræða það mál við formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar eftir þeim upplýsingum sem ég hafði úr umræðum um einmitt það atriði síðar sama dag. Þá hafði það ekki verið gert. Það er því alveg fullkomlega eðlilegt að þingmenn stjórnarandstöðunnar geri athugasemdir við verkstjórn af þessu tagi. Það er ekki síst þess vegna sem menn eru óánægðir og skilja ekki hvers vegna ekki er gerður reki að því að reyna að kanna hvort mögulegt sé að ná einhvers konar sáttafleti, og þá þýðir ekki að setja einhverja fundi fram í tímann.