132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:07]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Stjórnarandstaðan hefur verið mjög samstiga í málflutningi sínum um Ríkisútvarpið hf. Við teljum frumvarp ríkisstjórnarinnar vera afleitt og við viljum að því verði vísað frá. Við stöndum sameinuð í þeim málatilbúnaði.

Ég vil minna hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson á að einn samflutningsmanna hans að frumvarpi um að leggja Ríkisútvarpið niður og selja það, hv. þm. Pétur H. Blöndal, hefur sagt að það sé skref í rétta átt að færa stofnunina inn í þennan búning því þá verði auðveldara að selja fyrirtækið þegar fram líða stundir.

Hv. þm. svaraði ekki spurningu minni um hvernig hann mundi greiða atkvæði tillögu um að selja Ríkisútvarpið hf. Hvað það varðar að hv. þingmanni sé stillt upp frammi fyrir einhvers konar rannsóknarrétti þegar ég spyr hann einfaldra spurninga þá er ég bara að spyrja fyrir hönd þingheims væntanlega og þjóðarinnar þegar helsti talsmaður ríkisstjórnarinnar um að sannfæra þing og þjóð um að Ríkisútvarpið hf. verði í öruggum höndum fjárhagslega og rekstrarlega er sami maður og flutti þingmál og það nýlega um að Ríkisútvarpið yrði lagt niður og selt, og gerir sig sekan um eins mótsagnakenndan málflutning og raun ber vitni, þá er ekki annað en eðlilegt að menn óski eftir skýrum svörum.

Ég spyr aftur: Hvernig mundi hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson greiða atkvæði kæmi fram tillaga í þinginu að Ríkisútvarpið hf. yrði selt? Hvernig mundi hann greiða atkvæði?