132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Frumvörp um Ríkisútvarpið og fjölmiðla.

[13:39]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það er rétt að nú um helgina barst mér bréf frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar í hv. menntamálanefnd þar sem óskað var eftir því að frumvarpinu um Ríkisútvarpið yrði frestað, stofnuð yrði nefnd til að fara yfir málið og það yrði tekið fyrir aftur næsta haust.

Ég hef sagt alveg frá upphafi þessa máls, og stjórnarflokkarnir hafa verið sammála um þá stefnu, að það er okkar skoðun að það eigi að klára og afgreiða þetta mál á þessu þingi. Sú skoðun hefur ekki breyst. Ég tel heldur ekki að það hafi komið fram nýjar upplýsingar í þessu máli, eins og haldið hefur verið fram, sem leiði til þess að ástæða sé til að (Gripið fram í.) fresta málinu. Ég vil hins vegar taka fram að í bréfi hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar hefur verið óskað eftir því að fjölmargir gestir verði kallaðir fyrir nefndina til þess að fara nánar yfir þessi mál og við í meiri hlutanum höfum lagt okkur fram um að kalla alla þessa gesti fyrir nefndina.

Það er rétt að Sigurður Líndal lagaprófessor kom fyrir nefndina nú í morgun til að gera grein fyrir þeim athugasemdum sem fram koma á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Það er rétt að taka það fram, úr því að hv. þm. Mörður Árnason gerði það ekki í sinni ræðu, að Sigurður Líndal tók fram að honum hefði ekki verið kunnugt um þá breytingu sem gerð var á fjölmiðlafrumvarpinu þegar þau ummæli voru látin falla. Það kom heldur ekki fram í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar að á þessum fundi var einnig Páll Hreinsson, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands og formaður fjölmiðlanefndarinnar, og hann tók fram að með þeirri breytingu sem hér hefur verið gerð grein fyrir hafi verið skotið undir þann leka sem hugsanlega hafi verið gagnvart jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar.

Ég tel rétt að þetta komi fram vegna þeirra ummæla sem hafa fallið um þetta mál.