132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Atvinnuleysistryggingar.

742. mál
[15:39]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi hið síðasta sem hæstv. ráðherra nefndi þá vænti ég þess að þetta mál sé ekki þannig úr garði gert að það megi ekki lagfæra í félagsmálanefnd. Hæstv. félagsmálaráðherra vísar til að þetta sé samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins. Ég er þar sérstaklega að tala um ákvæði til bráðabirgða, þar sem fólk sem var skráð atvinnulaust fyrir 15. nóvember fær ekki þær sérstöku réttarbætur sem koma með þessum lögum, þ.e. þessar tekjutengdu bætur. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi ekkert á móti því, ef samstaða næst um það í nefndinni, að breyta þessu ákvæði.

Hæstv. ráðherra talar um, varðandi fjármögnunina, að þetta sé samkomulag um að fá niðurstöðu fyrst í nefnd forsætisráðherra um starfsendurhæfingu. Ég segi, samkomulag við hvern? Var það t.d. samkomulag við Alþýðusambandið að bíða eftir því að nefnd um starfsendurhæfingu lyki störfum til að fá niðurstöðu í fjármögnunina? Ég spyr: Hver á að fjármagna þessar vinnumarkaðsaðgerðir það sem eftir lifir þessa árs? Þessi lög taka gildi 1. júlí. Kemur þetta þá beint úr Atvinnuleysistryggingasjóði? Ég tel mikilvægt að fá það fram.

Ég spurði ráðherrann líka um styrkina, hvaða hugmyndir væru þar uppi á borði. Hafi hann þær ekki á takteinum núna, munum við fá upplýsingar um það, varðandi 62. og 63. gr., áður en málið verður afgreitt úr félagsmálanefnd? Ég held að það sé afar mikilvægt.

Síðan vil ég nefna það í lokin, af því að ráðherrann sagði að ekki væri verið að herða viðurlögin, heldur bara að gera þau skýrari, að ég er ekki sammála ráðherranum. Við verðum að fara vel yfir það í félagsmálanefnd. Eins þarf að fara yfir stöðu fólks sem er atvinnulaust lengur en í þrjú ár. Það er verið að breyta tímanum og verður að taka það upp í nefndinni. Þegar ráðherrann segir að taka verði það upp með sérstökum hætti, hvað meinar þá hæstv. ráðherra?