132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Ívilnanir til álvera á landsbyggðinni.

631. mál
[13:10]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin þó þau næðu ekki lengra en raun bar vitni. Ég vék sérstaklega að þeim ívilnunum sem ríkissjóður getur gert samkvæmt samþykktum ESA-dómstólsins. Það er athyglisvert hjá hæstv. ráðherra að hún kom inn á þær ívilnanir sem álverksmiðjan á Grundartanga nýtur og Fjarðaál, t.d. með stórfelldum afslætti á hafnargjöldum. Í öðru tilvikinu var höfnin held ég meira og minna byggð fyrir viðkomandi fyrirtæki. Þannig að þetta eru gríðarlega miklar ívilnanir.

Maður veltur fyrir sér í þessu samhengi líka þeim mikla flutningskostnaði sem fyrirtæki á landsbyggðinni verða fyrir, sem skýrsla sem gerð var af samgönguráðuneytinu 2003 sýndi að hefði vaxið hrikalega. Nú með hækkandi olíuverði er þetta mál enn alvarlega. Enda kom það fram í viðtali í útvarpinu í gær við fulltrúa atvinnulífs á Ísafirði sem bentu á þetta. En þegar á að koma að þeim þætti situr sú skýrsla föst, eða þær tillögur, í ríkisstjórninni eftir upplýsingum frá ráðherra.

Ég vil því spyrja til viðbótar: Hvað líður skýrslu um jöfnun flutningskostnaðar sem var eitt af stærri kosningaloforðum Framsóknarflokksins fyrir síðustu alþingiskosningar og ekkert hefur verið gert með? Því samkeppnisstaða atvinnulífs úti um land skerðist núna mjög. Það er ekki nóg að veita þessa gríðarlega háu ríkisstyrki til álvera með stórfelldum niðurgreiðslum á raforku, niðurgreiðslum á hafnargjöldum, niðurgreiðslum á sköttum o.s.frv. Það á ekki að mismuna óeðlilega. Tökum skipasmíðaiðnaðinn. Þar hefur ítrekað verið kallað eftir aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að jafna stöðu (Forseti hringir.) skipasmíðaiðnaðarins miðað við önnur lönd. Ekkert gerist. En þegar ál er annars vegar, þá er allt til.