132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Samkeppnisstaða ríkisbanka á húsnæðismarkaði.

590. mál
[13:28]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna hv. þm. Helgi Hjörvar tekur sér fyrir hendur að snúa út úr orðum mínum hér. Hann veit auðvitað vel að ég er að tala um verðtryggða vexti og þeir verðtryggðu vextir hafa aldrei verið lægri en núna frá því að samkeppnin hófst á þessum markaði og mér liggur við að segja að yfir 90% af húsnæði á Íslandi sé fjármagnað á þann hátt.

Það er hins vegar alveg rétt hjá honum að það er fleira sem segir til um húsnæðiskostnaðinn heldur en verðtryggðu vextirnir og verðbólgan kemur vissulega þar að, það er rétt hjá honum. En þá held ég að við þurfum að rifja það upp að sú ríkisstjórn sem nú situr hefur náð verulegum árangri í því að berjast við verðbólguna. Sennilega hefur verðbólgan aldrei verið eins lág að meðaltali og hún hefur verið það tímabil sem þessi ríkisstjórn hefur setið. Það þýðir að á þessu tímabili hafa vextir af íbúðahúsnæði, eins og hv. þingmaður reiknaði þá sjálfur, aldrei verið lægri og þá miklum mun lægri en á þeim tímabilum sem forverar þess flokks sem hann er í dag hafa setið í ríkisstjórn. Ég held að hv. þingmaður ætti að hafa þetta í huga þegar hann reynir að snúa út úr orðum mínum á þennan hátt.