132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Umferðaröryggi á Kjalarnesi.

680. mál
[14:21]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin og þá yfirlýsingu sem hann kom með varðandi vegbætur í tengslum við Grundarhverfi, sem ég held að sé afskaplega mikilvægt mál. Það er mikilvægt að huga að því og finna lausn sem tryggir umferðaröryggi á því svæði.

Hins vegar vil ég líka bregðast við þeirri gríðarlegu taugaveiklun sem greip um sig meðal hv. þingmanna Samfylkingarinnar, sem komu hver á fætur öðrum í ræðustól, orðvörustu menn Samfylkingarinnar að jafnaði sem aldrei víkja neikvæðu orði að nokkrum manni hvorki utan þings né innan, komu upp í röðum og báru skjöld fyrir félaga sinn, borgarfulltrúann Dag B. Eggertsson.

Ekkert af því sem kom fram í máli þeirra og ekkert af því sem þeir sögðu breytir vandræðaganginum af hálfu R-listans í þessu máli. Skorturinn á ákvarðanatöku, óákveðnin þegar kemur af því að taka af skarið í þessum efnum, gerir það að verkum að hæstv. samgönguráðherra hefur verið í verulegum vandræðum við það að koma þessu máli áfram. Í hvert skipti sem kemur að því að gera eitthvað í þessum málum koma fulltrúar R-listans, hvort sem það er borgarfulltrúinn Dagur B. Eggertsson eða einhverjir aðrir, með nýjar hugmyndir, einhverjar nýjar útfærslur og einhverjar nýjar leiðir. Það skortir gersamlega á að af hálfu borgaryfirvalda séu teknar ákvarðanir og sú stefna mörkuð sem nauðsynleg er til að hægt sé að koma þessu máli áfram.

Ég fagna því að hæstv. samgönguráðherra hafi gefið þær yfirlýsingar sem frá honum komu í sambandi við þessar framkvæmdir. (Forseti hringir.) Það undirstrikar hversu (Forseti hringir.) mikilvægt er fyrir Reykvíkinga að farið verði í (Forseti hringir.) Sundabraut sem fyrst.