132. löggjafarþing — 110. fundur,  26. apr. 2006.

Staða garðplöntuframleiðenda.

[15:31]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. 24. febrúar sl. birtist fréttatilkynning frá utanríkis- og landbúnaðarráðuneyti um undirritun samkomulags milli Íslands og ESB um tvíhliða viðskipti með landbúnaðarvörur á grundvelli 19. gr. EES-samningsins. Í niðurstöðu samkomulagsins kemur fram að tollar falla niður í viðskiptum samningslandanna á ákveðnum landbúnaðarvörum sem getið er um í viðauka I, þar á meðal er gert ráð fyrir gagnkvæmni í viðskiptum með blóm og plöntur, þó ekki afskorin blóm né pottaplöntur undir einum metra á hæð. Samningurinn á að koma til framkvæmda 1. janúar 2007, þ.e. eftir átta mánuði. Í fréttatilkynningunni er ekki útskýrt nánar hvað gagnkvæmni í viðskiptum með blóm og plöntur þýðir og þær útskýringar voru heldur ekki í ræðu hæstv. landbúnaðarráðherra sem við setningu búnaðarþings kynnti þetta samkomulag. Ekki er nema von að menn veigri sér við því að útskýra þessa niðurstöðu vegna þess að gagnkvæmni í viðskiptum milli Íslands og ESB með blóm og plöntur er ekkert nema orðin tóm, eða eins og segir í ályktun fundar Félags garðplöntuframleiðenda frá 14. mars:

„Með þessu samkomulagi hefur garðplöntuframleiðsla á Íslandi verið sett á fórnaraltari landbúnaðarráðherra. Sjálf athöfnin mun fara fram 1. janúar 2007.“

Virðulegi forseti. Hér á landi eru 49 stöðvar þar sem garðplöntur eru framleiddar. Lauslega áætluð stöðugildi eru um 150–200. Garðplöntuframleiðslan hefur aldrei verið ríkisstyrkt. Í garðplöntuframleiðslu er aðalræktun í sumarblómum, fjölærum blómum, runnum, trjám og skógarplöntum. Ríflega 90% af söluvöru garðyrkjustöðva eru innlend framleiðsla og á nokkrum stöðvum er eingöngu um innlenda framleiðslu að ræða. Greinin hefur staðið af sér ýmis áhlaup, m.a. að keppa í framleiðslu við ríkisrekstur eða ríkisstyrkta framleiðslu. Garðplöntuframleiðendur hafa um áratugi stundað rannsóknarstarf til að tryggja neytendum góða vöru. Þróunarstarfið sem stéttin hefur unnið er ómetanlegt. Það kemur ekki bara neytendum til góða heldur ekki síður náttúrunni þar sem reynt er að koma í veg fyrir að setja í sölu plöntur sem dreifa sér óhindrað í íslenskri náttúru heldur þær sem lifa í sátt við annað lífríki og veðurfar.

Í Garðyrkjuskólanum að Reykjum eru fjögur námssvið í grunnnámi. Um árabil hefur garðplöntusviðið verið langfjölmennast. Aðsókn í þetta nám mun hrynja ef rekstrargrundvelli garðplöntustöðva í landinu er ógnað vegna óhefts innflutnings á framleiðsluvöru þeirra. Það hefur slæm áhrif á stöðu skólans sem er veik fyrir. Þá er rétt að hafa í huga að einn mikilvægasti hluti framleiðslunnar er sumarblóm. Verði innflutningur þeirra leyfður óheftur á þeim tíma sem sala sumarblóma er að hefjast hér þá er um að ræða að hingað er verið að flytja margar tegundir blóma sem komnar eru á útsölu í þeim löndum sem flutt yrði inn frá. Garðplöntuframleiðendur keppa ekki við útsöluverð erlendis og menn geta velt því fyrir sér hversu margar þessara 49 stöðva sem eru í framleiðslu í dag lifa það af að missa sumarblómasöluna. Það versta er að ekkert samráð var haft við stéttina allan þann tíma sem samningar stóðu yfir, eða frá 6. mars til 18. nóvember 2005, og ekki heldur áður en umrædd fréttatilkynning barst frá ráðuneytunum. Ekkert samráð er fullkomin lítilsvirðing á störfum þessara stétta.

Hjá Sambandi garðyrkjubænda var undirbúningur í gangi vegna WTO-viðræðna, m.a. við að skilgreina hvaða tegundir í ræktun teljast viðkvæmar, hverjar á að vernda og hvaða plöntur skipti minna máli. Þessari vinnu var gefið langt nef í samningum við ESB.

Lögfræðingur Félags garðplöntuframleiðenda ritaði hæstv. landbúnaðarráðherra bréf 4. apríl sl. þar sem hún í mörgum liðum átelur harðlega vinnubrögð ráðuneytis og samráðsleysi þar sem þetta samkomulag komi til með að rústa garðplöntuframleiðslunni. Hún telur að fari svo að niðurstöður þessara samningaviðræðna komi að óbreyttu til framkvæmda 1. janúar 2007 sé ótvírætt verið að brjóta jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og vísar til þess að þegar tollvernd var felld niður af grænmeti 2002 voru gerðir aðlögunarsamningar um starfsskilyrði þeirrar greinar garðyrkjunnar milli ríkisstjórnarinnar, Bændasamtakanna og Sambands garðyrkjubænda. Gildistími þeirrar aðlögunar er tíu ár.

Mér vitanlega hefur bréfi lögfræðings Félags garðplöntuframleiðenda ekki verið svarað. Við hljótum að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann hyggist bregðast við erindi félagsins. Hver var tilgangurinn með því að fella niður tollavernd af garðplöntum í gagnkvæmum viðskiptasamningum? Hver var ástæða þess að ekki var haft samráð við garðplöntuframleiðendur við gerð samninganna? Hvaða skyldum hefur landbúnaðarráðuneytið að gegna gagnvart þeim atvinnugreinum sem til ráðuneytisins heyra hvað varðar samráð við gerð svo afdrifaríkra samninga? Telur ráðherra ekki eðlilegt að samningar eins og þessir séu kynntir fyrir landbúnaðarnefnd Alþingis áður en frá þeim er gengið en þegar tollvernd af ýmsum grænmetistegundum var afnumin 2002 var gerður aðlögunarsamningur til tíu ára við framleiðendur með framleiðslutengdum beingreiðslum? Með hvaða rökum er sama tollvernd af (Forseti hringir.) garðplöntum afnumin nú án nokkurrar aðlögunar, án samráðs við greinina, án nokkurra lausna af hálfu ráðuneytisins til að bæta framleiðendum skaðann?