132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Útskriftarvandi LSH.

[13:59]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Þessi umræða sýnir greinilega þann titring sem nú er í samfélaginu vegna sveitarstjórnarkosninganna. Hér hrópa menn mikið um sviðna jörð í öldrunarmálum. Þetta er algerlega fráleit staðhæfing og ég bið þá sem segja svona að kanna hvernig málin eru í öðrum ríkjum. Ég fullyrði að við búum almennt vel að öldruðum á Íslandi. En að sjálfsögðu viljum við gera betur eins og metnaðarfullu samfélagi sæmir en staðan er ágæt. Það hljóta allir réttmætir að sjá. Hins vegar er kerfislægur vandi og ég sagði að líklega væri um kerfislegan vanda að ræða áðan. Ég bið hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að hlusta betur eftir því sem sagt er úr þessum stól, að líklega er um kerfislegan galla að ræða.

Það var líka sagt hér að það hefði verið staðið við samkomulag og það sagði hæstv. félagsmálaráðherra Jón Kristjánsson. Í störfum hans á sínum tíma fólst líka að heimahjúkrun var stórefld, þar er búið að gera mjög góða hluti. En núna kannast enginn við neina ábyrgð í neinu, hvorki sveitarfélög né aðrir. Ég vil bara ítreka að sveitarfélög bera mikla ábyrgð í þessum málum og þar er félagsþjónusta sveitarfélaga efst á blaði. Ekki heyrir maður mikið um það í þessari kosningabaráttu að framboðin ætli að stórefla félagslega heimaþjónustu. Það heyrist lítið um það. Það er þannig að það þarf að auka aðganginn af LSH á hjúkrunarheimilin, núna er 90% forgangur frá LSH inn á Sóltún og Vífilsstaði, ekki á hin heimilin og þessu þarf að breyta. Það þarf líka að breyta vistunarmatinu.

Sú staða sem er núna er engum einum að kenna og ég ætla ekki að vera svo óábyrg að kenna stjórnarandstöðunni um né öðrum flokkum. Og það er alveg ljóst að þau rými sem hafa verið byggð hafa verið byggð í góðu samkomulagi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Landssambands eldri borgara.