132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

734. mál
[20:25]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrir þinginu núna liggja tvö frumvörp ásamt með fleirum þar sem verið er að stofna til hlutafélagareksturs um fyrirtæki á vegum ríkisins. Annars vegar á að stofna hlutafélag um fyrirtæki sem hefur aðgang að skatttekjum, þ.e. Ríkisútvarpið, og hins vegar á að stofna hlutafélag um ríkiseinkasölu sem innheimti skatttekjur, þ.e. ÁTVR. Mér finnst þetta hvort tveggja jafnvitlaust en það má kannski segja að þetta sé misjafnlega skaðlegt fyrir fyrirtækin og þá þjónustu sem þau veita. Það koma svo sem engin rök fram í frumvarpi ráðherra fyrir því af hverju þessi leið er valin, en eins og ég segi, mér finnst þetta aðallega vitlaust.

Hins vegar vil ég aðeins gera hér að umtalsefni hvers vegna farin er svona misjöfn leið í því að stofna til þessara hlutafélaga og spyrja ráðherrann út í það. Annars vegar þegar um er að ræða að stofna hlutafélag um ÁTVR er gert ráð fyrir því hér að það eigi að skipa þriggja manna óvilhalla nefnd og hlutverk nefndarinnar sé að meta eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og að leggja mat á hvert hlutafélag ÁTVR skuli vera. Svo segir: „Við þetta mat skal nefndin hafa fullan aðgang að öllum gögnum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins“ o.s.frv.

Þegar kemur að Ríkisútvarpinu segir bara: „Ríkissjóður leggur allar eignir, réttindi, viðskiptavild, skuldir og skuldbindingar Ríkisútvarpsins til hlutafélagsins og menntamálaráðherra ákveður heildarfjárhæð hlutafjár í Ríkisútvarpinu.“

Af hverju eru farnar svona mismunandi leiðir, annars vegar þegar um er að ræða ÁTVR og hins vegar þegar um er að ræða Ríkisútvarpið? Af hverju er í öðru tilvikinu um það að ræða að skipa þriggja manna nefnd óvilhallra manna til þess að meta eignirnar og skuldirnar en í hinu tilvikinu er bara ríkissjóðs að leggja þær eignir og réttindi inn án þess að kveðið sé á um það hvernig það skuli metið? Þetta vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra um, hvernig á því stendur að svo mismunandi er að verki staðið.