132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[13:38]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þjóðin hefur orðið vitni að einhverjum ótrúlegustu pólitísku hrossakaupum sem sögur fara af. Hrossakaupum á vettvangi sveitarstjórnarmála er stýrt úr Stjórnarráði Íslands en áhrifanna gætir í þessu húsi vegna þess að hrossakaupin ganga ekki aðeins út á það að færa ríkisstjórnarsamstarfið inn í Ráðhús Reykjavíkurborgar, þau ganga einnig út á hitt að lögfesta frumvörp sem vitað er að óánægja er með innan stjórnarliðsins. Ég vísa þar annars vegar í mál hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, og hins vegar í Ríkisútvarpsmál hæstv. menntamálaráðherra.

Hæstv. forseti. Á meðan óstjórn ríkir í efnahagsmálum, á meðan verðbólga mælist í tveggja stafa tölum, á meðan vextir eru á uppleið og rýra þannig kjör launafólks í landinu, á meðan verið er að birta skýrslur um vaxandi fátækt og örbirgð á Íslandi neitar ríkisstjórnin að ræða málefni af þessu tagi sem snerta hag þjóðarinnar. Nei, það eru gælumál hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, og hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sem verða að fara í gegnum þingið. Þetta eru hrossakaup sem eru ótrúleg. Við hljótum að mótmæla þessum vinnubrögðum.