132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:27]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta snýst um einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Ég er því andvígur. Ég er þeirrar skoðunar að Ríkisútvarpið eigi að vera í þjóðareign sem stofnun. Við vitum hins vegar öll hver er vilji þingmanna Sjálfstæðisflokksins, hann hefur birst hér á þingi, um að einkavæða eigi Ríkisútvarpið og selja það.

Hins vegar velti ég fyrir mér hvernig staða Framsóknarflokksins er í málinu. Ég hefði viljað sjá að fylgiskjöl hefðu verið með frumvarpinu, þ.e. flokkssamþykktir Framsóknarflokksins varðandi Ríkisútvarpið. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ekki hefði verið rétt að láta flokkssamþykktir Framsóknarflokksins vera með. Má ég vitna í það sem Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir á heimasíðu sinni 11. nóvember sl. með leyfi forseta:

„Það þykir mér hraustlega mælt í ljósi þess að hlutafélagavæðingunni hefur verið hafnað. Flokksþing Framsóknarflokksins 2001 ályktaði orðrétt „Ríkisútvarpinu verði ekki breytt í hlutafélag“ og sú samþykkt stendur enn óhögguð. Á næsta flokksþingi, sem var 2003, var bætt við að „breyta skal rekstrarformi Ríkisútvarpsins í sjálfseignarstofnun“. Loks var ályktað á þessi ári á flokksþingi Framsóknarflokksins að „mikilvægt er að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareigu“. Samþykktirnar eru í eðlilegu samhengi og mynda skýra stefnu flokksins. Síðari samþykktirnar styrkja þá fyrstu, sem hafnar hlutafélagavæðingu RÚV.“

Hefði ekki verið eðlilegt til að öllu væri nú til skila haldið hvað verið er að knýja fram, þ.e. einkavæðingu Ríkisútvarpsins, að þessar flokkssamþykktir Framsóknarflokksins (Forseti hringir.) kæmu fram og væru hluti af fylgiskjölum þannig að (Forseti hringir.) ferlið væri öllum ljóst, frú forseti?