132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:34]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það verður að segjast eins og er að ég hef að nokkru leyti misst þráðinn í þessu máli, því miður, vegna fjarveru minnar frá þingstörfum síðustu vikurnar áður en þinghlé var gert. En engu að síður þekki ég þessar breytingartillögur sem hv. formaður nefndarinnar talaði hér fyrir í framhaldsnefndaráliti sínu.

Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að þótt breytingartillögurnar séu góðra gjalda verðar, ég tek það fram, þá finnst mér þær samt vera til marks um hversu vanhugsað málið hefur verið frá upphafi af hálfu þingmanna ríkisstjórnarflokkanna. Því mér finnst þetta vera breytingar sem í sjálfu sér ganga að hluta til gegn upphaflegum málflutningi þessara sömu þingmanna. Mér finnst þetta staðfesta þá gagnrýni stjórnarandstöðunnar sem hefur frá fyrsta degi verið á þetta mál, að málið sé vanhugsað, illa samið og vanreifað að öllu leyti.

Að þessu sögðu langar mig að spyrja hv. formann nefndarinnar þriggja spurninga. Mér finnst skorta rökstuðning hv. þingmanns á því hvers vegna meiri hlutinn ákvað nú allt í einu að láta upplýsingalögin gilda um þetta frumvarp. Ég spyr því: Hvað olli þessum umskiptum meiri hlutans? Í öðru lagi spyr ég: Hvað var fjallað um varðandi endurnýjun dreifikerfisins, nú á milli 2. og 3. umr.? Var t.d. fjallað eitthvað um væntanlega aflagningu analog-kerfisins sem Ríkisútvarpið hefur notast við hingað til? Og upptöku stafræns búnaðar m.a. til upptöku bæði fyrir útvarp og sjónvarp? Í þriðja lagi: Hvað fjallaði nefndin um varðandi fjárþörf þess þjónustusamnings sem gert er ráð fyrir samkvæmt breytingartillögunum að gerður verði milli menntamálaráðuneytisins og Ríkisútvarpsins?