132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:37]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að hv. þingmaður er þeirrar skoðunar að þær breytingartillögur sem meiri hlutinn leggur til séu góðra gjalda verðar. En ég get ekki tekið undir það með hv. þingmanni að þetta frumvarp sé vanhugsað og þessar breytingar sýni fram á að frumvarpið hafi verið vanhugsað. Síður en svo, eins og ég sagði í ræðu minni þegar ég mælti fyrir framhaldsnefndarálitinu, þá er hér verið að koma til móts við þau sjónarmið sem fram komu í umræðu innan nefndarinnar og á Alþingi. Með þessum breytingum er að mínu mati og meiri hlutans verið að koma með mjög sanngjörnum hætti til móts við þær athugasemdir sem færðar voru fram hér í umræðum á þinginu.

Ég get upplýst hv. þingmann um að ég sagði við 1. umr. að ég teldi að upplýsingalög ættu ekki að gilda um Ríkisútvarpið. Ég sagði að það ættu engin sérákvæði að gilda um þetta hlutafélag, hvorki hvað varðaði upplýsingalögin né skattalega meðferð þess. Ég er í prinsippinu enn þá þeirrar skoðunar að þannig eigi það að vera.

En ég meðtók þau rök sem færð voru fyrir því að láta upplýsingalögin gilda um Ríkisútvarpið hf. Það gerði meiri hlutinn líka. Við rökstyðjum það nokkuð ítarlega í nefndaráliti okkar. Með þessu erum við að koma til móts við athugasemdir stjórnarandstöðunnar.

Ég held að hv. þingmaður ætti að fagna því frekar en hitt að slíkt sé gert í umræðum og við meðferð á mikilvægu máli eins og þessu. Varðandi endurnýjun (Forseti hringir.) dreifikerfisins var það atriði ekki tekið til umfjöllunar í (Forseti hringir.) nefndinni en hvað varðar fjárþörfina þá hef ég gert grein fyrir henni.