132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:46]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, við þurfum ekkert að karpa meira um það, að í þessu frumvarpi felst ekki að það eigi að selja Ríkisútvarpið. Það er alveg ljóst hjá hv. þingmanni. Hins vegar hafa skoðanabræður hans haldið því fram að þetta væri skref í þá átt. Við þurfum ekkert að diskútera það mikið meira.

En varðandi eiginfjárhlutfallið og stöðu Ríkisútvarpsins fannst mér svör hv. þingmanns ekki vera nægjanlega skýr. Ég verð því að fara fram á það, frú forseti, að annaðhvort verði það hæstv. menntamálaráðherra eða hv. þingmaður sem taki af allan vafa um að halli Ríkisútvarpsins, sem var nálægt því 200 millj. um síðustu áramót, verði að fullu bættur þannig að það sé öruggt að þessi lágmarkstala, 10%, sé að minnsta kosti trygg — ég vek athygli á að það er algjör lágmarkstala og um það deilt hvort það sé nægjanlegt.

Frú forseti. Þetta sýnir enn og aftur hversu vanbúið málið var, að þessir hlutir skuli ekki hafa legið á hreinu strax við 1. umr. Hvað þá heldur núna þegar við erum að hefja (Forseti hringir.) 3. umr. Þá er enn verið að velkjast í vafa um hvort (Forseti hringir.) þetta verði örugglega tryggt.