132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

samræmd lokapróf í grunnskóla.

621. mál
[14:07]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að starf það skuli vera komið í gang sem hæstv. ráðherra lýsti, þ.e. heildarendurskoðun grunnskólalaganna. En þá vil ég líka taka það fram hér að ég lít svo á að það frumvarp sem liggur fyrir þessu þingi sem leggur til ákveðnar breytingar á grunnskólalögunum sé þar með fallið um sjálft sig og verði ekki krafa frá hæstv. ráðherra að afgreiða það frá þinginu á þessu sumarþingi.

Varðandi síðan samræmdu prófin vil ég taka fram að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur í sinni nýendurskoðuðu menntastefnu lagt áherslu á að samræmdu prófin og einstaklingsmiðaða námið séu í sjálfu sér andstæður sem sé erfitt að láta ganga upp saman. Mér heyrist á máli hæstv. ráðherra að þessi hugsun sé komin inn í ráðuneytið og ég fagna því.

Svo vil ég segja að lokum að námskráin getur líka verið miðstýrandi. Það er kannski næsta skref fyrir hæstv. ráðherra og okkur, kjörna fulltrúa á Alþingi, að skoða með hvaða hætti við getum leyst almenna námskrá af hólmi, kannski eins og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt til með réttindaskrá fyrir nemendur.