132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

eignir Listdansskóla Íslands.

758. mál
[14:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Mikið hefur verið rætt síðustu mánuði um þá ákvörðun menntamálaráðherra að leggja Listdansskóla Íslands niður. Margir hafa talið að það stefni listdansnámi á Íslandi í voða, en ég velti fyrir mér hvort fleiru sé stefnt í voða og spyr því um þær þjóðargersemar sem teljast til eigna Listdansskólans. Þá helst er ég að velta fyrir mér bókasafni og búningum. Þessir hlutir eru margir hverjir frá stofnun skólans og Þjóðleikhússins en saga þessara tveggja stofnana er samofin allt frá 1952. Þetta eru hlutar af menningarsögu þjóðarinnar, þarna er bæði safn af ljósmyndum frá sögu listdans og Þjóðleikhússins, þarna er jafnframt um að ræða mjög dýrmæta búninga allt frá 1952 sem hafa verið vel varðveittir, eru margir gerðir af Lárusi Ingólfssyni og eru taldir afskaplega dýrmætur partur af menningarsögu þjóðarinnar.

Frú forseti. Hvað verður um þessi verðmæti? Fylgja þau með til einkaaðilanna, fara þau í geymslu úti í bæ eða fara þessi verðmæti á Þjóðminjasafnið og þá á stað er þeim telst verðugur?

Í ljósi þessa spyr ég hæstv. menntamálaráðherra:

Hvað verður um eignir Listdansskóla Íslands, t.d. fasteignir, búninga og bókasafn, þegar skólinn verður lagður niður?