132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

eignir Listdansskóla Íslands.

758. mál
[14:28]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að koma upplýsingum á framfæri um breytt fyrirkomulag listdansnáms frá og með næsta skólaári. Starfsemi Listdansskóla Íslands leggst þá niður í núverandi mynd og frá sama tíma verður boðið upp á nám til stúdentsprófs á sérstöku kjörsviði í listdansi við Menntaskólann við Hamrahlíð.

Það er miðað við að MH semji við sjálfstætt starfandi listdansskóla um hinn verklega hluta námsins. Einnig er miðað við að einstakir framhaldsskólar geti boðið upp á nám í listdansi í vali enda semji þeir þá við sjálfstætt starfandi listdansskóla sem kenna listdans á framhaldsstigi samkvæmt nýrri námskrá. Með þessari breytingu fjölgum við tækifærum þessara nemenda.

Hinn 1. desember sl. var undirrituð viljayfirlýsing milli ráðuneytisins, Menntaskólans við Hamrahlíð og Dansmenntar ehf. um samstarf um listdansnám á framhaldsskólastigi. Skólinn tekur til starfa um sumarið 2006 undir merki Listdansskóla Íslands og mun bjóða upp á nám samkvæmt gildandi námskrá skólaárið 2006–2007 í núverandi húsnæði Listdansskóla Íslands við Engjateig í Reykjavík. Dansmennt ehf. var upphaflega stofnuð af kennurum við Listdansskóla Íslands en nú hefur verið gert samkomulag milli stofnenda félagsins og Listaháskólans um yfirtöku Listaháskóla Íslands á félaginu.

Ég tel, frú forseti, að með þessum breytingum, þ.e. með heildstæðri námskrá fyrir listdansinn sem sett hefur verið í fyrsta sinn og með því að í boði er nám til stúdentsprófs á sérstöku kjörsviði, sé kominn mjög traustur grundvöllur listdansfræðslu í landinu. Ég bind einnig vonir við það að sjálfstæðir listdansskólar muni sinna þessu brýna og mikilvæga námi af miklum metnaði.

Þá að efni spurningarinnar, frú forseti, en þetta taldi ég rétt að fara yfir þannig að menn áttuðu sig á forsögunni.

Eignum Listdansskóla Íslands verður ráðstafað þannig að við niðurlagningu skólans munu búningar fara til skráningar og vörslu hjá búningadeild Þjóðleikhússins, aðrir munir eins og myndir, myndbönd o.fl. frá starfsárum Listdansskólans fara til Leikminjasafns Íslands. Sá flutningur er þegar hafinn með skráningu muna.

Dansmennt ehf. mun síðan semja við Þjóðleikhúsið um afnot af búningum eftir þörfum. Heiti Listdansskóla Íslands og merki ásamt öðrum tækjum, búnaði, bókum og öðru kennsluefni Listdansskólans fær Dansmennt til afnota í samræmi við þjónustusamning sem gerður hefur verið. Það er engin fasteign í eigu Listdansskóla Íslands heldur hefur skólinn verið í leiguhúsnæði að Engjateigi 1 og gert er ráð fyrir því að Dansmennt ehf. taki við þeim leigusamningi.