132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

eignir Listdansskóla Íslands.

758. mál
[14:31]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka ráðherra ágæt svör um búninga og myndir og aðrar eignir. En úr því ráðherra fór svona vel yfir söguna er kannski rétt að bæta við hér spurningu varðandi skólann, hvort skrifað hafi verið undir eitthvað meira en þessa viljayfirlýsingu við þá aðila sem eiga að taka við rekstri skólans, sem var skrifað undir 1. desember. Hefur verið gengið eitthvað lengra?

Hvað varðandi fyrirgreiðslu frá ríkinu til skólans? Ef ég skil það rétt fá aðrir listdansskólar ekki rekstrarstyrki frá ríkinu. Hvað verður um þennan einkaskóla? Fær hann rekstrarstyrk? Menn hafa verið að nefna í mín eyru 40, 50 jafnvel upp í 100 millj. kr. á ári. Ég spyr: Fær hann rekstrarstyrk eða ekki frá ríkinu tímabundið eða til lengri tíma? Er það þá hreinlega ekki brot á jafnræðisreglunni ef þetta á einungis við um þennan eina skóla?