132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

skoðanakannanir.

769. mál
[14:58]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég var ekki alveg sáttur við svör hæstv. ráðherra og fannst þau bera keim af útúrsnúningi. Með þessari fyrirspurn er ég alls ekki að mælast til þess að ráðherra fari að hlutast til um það hvernig Háskóla Íslands eða stofnunum á hans vegum er stjórnað, alls ekki. Ég er að kalla eftir skoðun eða áliti ráðherra á því hvort hún, sem er æðsti yfirmaður Háskóla Íslands og hæstv. menntamálaráðherra, telji eðlilegt eða samrýmast kröfum um fagleg vinnubrögð óháðra vísindastofnana að þær geri kannanir eins og við sáum Félagsvísindastofnun gera á Íslandi, í sveitarfélögum víða um land, löngu áður en frestur til að skila inn framboðum var runninn út. Ég tel það mjög vafasamt faglega séð að opinber vísindastofnun á vegum Háskóla Íslands stundi slík vinnubrögð. Látum vera þó að einkafyrirtæki hefði gert það. Mér hefði verið alveg sama um það, enda geta þau gert það sem þau vilja svo framarlega sem þau vinna innan ramma laganna. En mér finnst mjög vafasamt faglega séð að vísindastofnun geri skoðanakannanir með þessum hætti, því að við vitum að mjög víða áttu eftir að koma fram framboð í sveitarfélögum. Þessar kannanir voru í raun og veru algerlega marklausar. Það var ekkert að marka þær, þetta var tómt kjaftæði. Þarna er verið að eyða tíma vísindamanna, ekki kannski fjármunum Háskóla Íslands en tíma vísindamanna, í einhverja vinnu sem er tómt rugl frá a til ö. Og mér finnst það mjög ámælisvert að Háskóli Íslands, sem er fagleg rannsóknarstofnun, eyði tíma sínum og starfskröftum í það að stunda samkvæmisleiki af þessu tagi. Mér finnst það mjög ámælisvert og því bar ég fram þessa fyrirspurn en ég verð að segja að svör ráðherra valda mér nokkrum vonbrigðum.