132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

framhaldsskóli í Suðvesturkjördæmi.

775. mál
[15:11]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Eitt fyrsta þingmál mitt þegar ég kom á þing 1999 var bygging framhaldsskóla sem víðast í heimabyggðum þannig að fólk gæti sótt framhaldsskóla í heimabyggð.

Eitt af fyrstu málum mínum var einmitt framhaldsskóli á Snæfellsnesi og reyndar vakti ég líka máls á framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Framhaldsskólinn á Snæfellsnesi er nú kominn. Ég hef síðan flutt á Alþingi, á tveimur eða þremur undanförnum þingum, tillögu um framhaldsskóla í Mosfellsbæ. Mosfellsbær er eitt stærsta byggðarlagið sem ekki hefur nú framhaldsskóla innan sinna vébanda. Framhaldsskóli er hluti af því að byggja upp samfélag.

Þetta mál hefur samt fengið miklu daufari undirtektir en ég átti von á. Mér hefur fundist til dæmis sjálfstæðismeirihlutinn í Mosfellsbæ sýna þessu fullmikið og ótrúlegt tómlæti. Þess vegna fagna ég því, í raun fyrir hönd Mosfellsbæinga, ef nú verður (Forseti hringir.) breyting á og hafist handa við að (Forseti hringir.) byggja framhaldsskóla í Mosfellsbæ, þó svo að sjálfstæðismenn hafi nú allt í einu fundið sig knúna til (Forseti hringir.) að mæla með því.