132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

nýtanlegt vatnsafl og æskileg álframleiðsla.

773. mál
[15:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Það er nánast gaman að sjá hvað hæstv. iðnaðarráðherra er illa við þessa umræðu og fer út í ýmsar áttir þegar að henni kemur með ekki ákaflega kurteislegum athugasemdum um þann aumingja sem hér stendur í ræðustól og meiningu hans. Fyrirspurnina varð að endurtaka með öðru orðalagi vegna þess að hæstv. iðnaðarráðherra skaut sér undan að svara henni síðast með því að fara út og suður í ræðustólnum þannig að það er ósköp eðlilegt að hún komi aftur. Við getum því miður ekki þakkað fyrir svörin enda þau ekki þannig fram reidd að þau krefjist þakka. Ég er hins vegar ánægður með að hæstv. iðnaðarráðherra hefur þó lýst yfir einhverri skoðun sinni á málinu, þeirri að taka undir með þeim sem telja að hér séu 25–30 teravattstundir framleiðanlegar með fullu tilliti til umhverfissjónarmiða, með þeirri framtíðarsýn sem hv. þm. Helgi Hjörvar lýsti hér áðan.

Ég er líka ánægður með að iðnaðarráðherra kannast við að hafa nefnt eina milljón tonna í ársframleiðslu á áli. Að vísu hefur hún bakkað út úr því sem hún sagði að þá væri af ýmsum ástæðum rétt að láta gott heita, sem hún sagði samkvæmt endursögn Íslensks iðnaðar og í frétt í Ríkisútvarpinu um mjög svipaða hluti. Nú segir hún að þá eigi að draga úr áherslu á þeim vettvangi. Málið er þetta: Hæstv. iðnaðarráðherra vill ekki staldra við þessa tölu vegna þess að hún vill hafa eitt verkefni í gangi í einu þangað til svo langt er gengið sem orkuiðnaðurinn, sem er hinn eiginlegi húsbóndi hæstv. iðnaðarráðherra í sínu starfi — þangað til hún er orðin ánægð með sitt og ekki er í raun og veru fleira virkjanlegt af hagkvæmnisástæðum og það er hin raunverulega ástæða þess að iðnaðarráðherra er á flótta í þessu máli í dag, bæði í þessum fyrirspurnatíma og hinum fyrri.