132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

öryggisgæsla við erlend kaupskip.

802. mál
[18:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Frekar fannst mér svar hæstv. ráðherra vera rýrt í roðinu þó að ég hafi að vissu leyti skilning á því að hann vilji ekki upplýsa hér og nú hvernig gæslu við þessi skip er háttað. Hins vegar held ég að það sé alveg hárrétt sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson benti á að mikilvægur þáttur í slíkri öryggisgæslu sé að hún sé sýnileg og virk og að hún sé hreinlega trúverðug.

Ég hef heimildir fyrir því að nú um mánaðamótin mars/apríl hafi mönnum, sem sáu um öryggisgæslu samkvæmt fyrirkomulagi sem búið var að koma á hjá höfnunum eða bryggjum við Reykjavíkurhöfn, hreinlega verið tilkynnt að allri gæslu við kaupskip yrði hætt, þ.e. við Korngarð, Vogabakka, Ártúnshöfða og Vesturhöfn. Að íslenskir starfsmenn hjá öryggisgæslufyrirtækjum sem sáu um þetta hafi nánast verið sendir heim.

Þetta er ástæðan fyrir því að ég kom hingað, til að spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver fótur gæti verið fyrir þessu, hvort hann gæti staðfest þetta. Ég hef sjálfur í höndum nokkuð ítarlega lýsingu á því hvernig þessari gæslu er háttað og sú lýsing virkar á mig sem afskaplega trúverðug og við lestur hennar er ég ekki í neinum vafa um að sú gæsla hefur verið öflug á meðan hún fór fram. Ég ætla svo sem ekki að fara að básúna það hér og nú hvernig þetta var gert enda ber ég virðingu fyrir því sjónarmiði að við séum ekki endilega að auglýsa það út um borg og bý hvernig gæsla um kaupskipin sé. Það er alveg ljóst að mörg þessara skipa geta verið viðriðin smygl og nógur er vandinn samt í þjóðfélaginu, til að mynda varðandi fíkniefni, þótt við opnum ekki fyrir ólöglegan innflutning á slíkum efnum eða öðru um þessar hafnir með slælegri gæslu.