132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

evrópsk samvinnufélög.

594. mál
[14:36]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um evrópsk samvinnufélög, frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Nefndarálitið er að finna á þskj. 1259 og þar kemur fram hvaða gestir komu á fundi nefndarinnar og einnig hvaða umsagnir bárust.

Tilgangur frumvarpsins er að innleiða í íslenskan rétt reglugerð ráðsins, EB, nr. 1435/2003 frá 22. júlí 2003, um samþykktir fyrir evrópsk samvinnufélög.

Meginmarkmið reglugerðarinnar er að gefa samvinnufélögum, sem vilja starfa í fleiri en einu ríki Evrópska efnahagssvæðisins, kost á að stofna evrópskt samvinnufélag sem starfar þá á grundvelli reglugerðarinnar.

Nefndin vekur athygli á því að lög um aðild starfsmanna að evrópskum samvinnufélögum hafa ekki verið sett, sbr. tilvísun 4. gr. frumvarpsins í slík lög.

Í 13. gr. frumvarpsins er fjallað um umsókn evrópsks samvinnufélags um flutningsleyfi hjá samvinnufélagaskrá og í 14. gr. um meðferð slíks flutningsmáls hjá samvinnufélagaskrá. Í 1. mgr. síðarnefndu greinarinnar kemur fram að hafi samvinnufélagaskrá tekið umsókn um flutningsleyfi samkvæmt 13. gr. til athugunar skuli hún gefa út „áskorun“ til kröfuhafa evrópsks samvinnufélags og birta hana í Lögbirtingablaði. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skal samvinnufélagaskrá senda sérstaka „tilkynningu um áskorun“ samkvæmt 1. mgr. til sýslumanns í því umdæmi þar sem skráð skrifstofa evrópsks samvinnufélags er. Í umsögn Sýslumannafélags Íslands er bent á að ekki komi fram í frumvarpstextanum í hvaða tilgangi senda skuli umrædda tilkynningu né til hvaða aðgerða sýslumanns er mælst af því tilefni. Með hliðsjón af þessari athugasemd leggur nefndin til að 3. mgr. 14. gr. verði felld brott.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

3. mgr. 14. gr. falli brott.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Jónína Bjartmarz, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Guðjón Ólafur Jónsson, Birgir Ármannsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Ásta Möller, Ögmundur Jónasson og Lúðvík Bergvinsson.