132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

Landhelgisgæsla Íslands.

694. mál
[11:20]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni allyfirgripsmikill lagabálkur um Landhelgisgæslu ríkisins. Í þessu frumvarpi er opnað á ýmsar leiðir til skipulagsbreytinga, þar með að mynda hlutafélög um einstaka rekstrarþætti Landhelgisgæslunnar. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur staðhæft að ekki standi til að hlutafélagavæða eða einkavæða löggæslu eða fela starfsmönnum einkaaðila ábyrgð á stjórnsýslu ríkisins. Ég hef sannfærst um að þetta sé rétt og mun styðja lagafrumvarpið í heild sinni. Þar er að finna ýmislegt sem er til bóta vissulega. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði munum hins vegar sitja hjá við 6. gr., 17. gr. og 25. gr. Í 6. gr. er kveðið á um hverjir skuli hafa lögregluvald með hendi. Við teljum að þar kunni skilgreiningar að orka tvímælis. Í 17. gr. og 25. gr. er kveðið á um opnun til hlutafélagavæðingar. En í 22. gr. horfir öðruvísi við. Við munum greiða atkvæði gegn þeirri grein. Í þeirri grein er lagt bann við verkföllum hjá tilteknum starfshópum innan Landhelgisgæslunnar. Það í sjálfu sér er ekkert nýtt. En það sem er nýtt er að ákvæði hafi verið felld úr gömlu lögunum sem gilda um Landhelgisgæsluna þar sem kveðið er á um kjaratengingu milli þessara hópa og samninga á almennum vinnumarkaði. Ef fara á í samninga af þessu tagi þá er rétt að gera það í samvinnu og samkomulagi við viðkomandi starfshópa en ekki með einhliða lagasetningu eins og hér er gert.

Ég ítreka, hæstv. forseti, að margt er ágætt í þessum lögum. Við munum styðja lagabálkinn í heild sinni en á þessum forsendum munum við sitja hjá við þrjár lagagreinar, 6. gr., 17. gr. og 21. gr. en greiða atkvæði gegn 22. gr.