132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

Flugmálastjórn Íslands.

707. mál
[12:53]
Hlusta

Frsm. minni hluta samgn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta samgöngunefndar í þeim málum sem hér eru til umfjöllunar, þ.e. um Flugmálastjórn Íslands og um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands

Gert er ráð fyrir að skipulagi flugmála hér á landi verði breytt. Skilið verði á milli þjónustu og reksturs annars vegar og stjórnsýslu og eftirlits hins vegar. Sérstök lög verði sett um Flugmálastjórn Íslands. Verkefni Flugmálastjórnar verður samkvæmt frumvarpi um Flugmálastjórn Íslands að fara með stjórnsýslu á sviði loftferða, hafa eftirlit með loftferðastarfsemi og stuðla að öryggi í flugi. Samkvæmt frumvarpi um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands er ríkisstjórninni síðan heimilað að stofna hlutafélag um þjónustuverkefni Flugmálastjórnar, þ.e. bæði flugvallarekstur og flugleiðsöguþjónustu.

Þær breytingar sem málin gera ráð fyrir eru umfangsmiklar og við meðferð þeirra í nefndinni komu upp mörg álitamál. Ekki gafst tími til að svara öllum þeim spurningum sem vöknuðu.

Margar leiðir eru að því takmarki sem ætlað er að ná með málunum. Minni hlutinn er ekki sammála þeirri leið sem valin var. Sú leið að stofna hlutafélag um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands er aðeins ein leið af fjórum sem fjallað er um í skýrslu stýrihóps um framtíðarskipan flugmála sem notuð er sem ákveðið grunngagn við frumvarpagerðina.

Með stofnun hlutafélags um flugvallarekstur og flugleiðsöguþjónustu eru störf starfsmanna hjá Flugmálastjórn lögð niður. Þeir starfsmenn sem starfað hafa á þessum sviðum flytjast yfir til hlutafélagsins. Með því verður grundvallarbreyting á réttindum og skyldum starfsmanna, m.a. má nefna að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, munu ekki gilda um starfsmenn hlutafélagsins. Í þeim lögum eru ákvæði um mjög mikilvæg réttindi fyrir starfsmenn, t.d. er varða starfsöryggi. Þá munu stjórnsýslulög og upplýsingalög ekki ná til starfseminnar.

Minni hlutinn hefur lagt til að fleiri leiðir verði skoðaðar til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að. Ekki hafa verið færð fram rök fyrir því að hlutafélagaformið sé rétta leiðin. Þá sýnir sagan að þrátt fyrir fögur orð og fyrirheit hafa flest ríkisfyrirtæki sem breytt hefur verið í hlutafélög verið seld einkaaðilum. Óvíst er að sú þjónusta sem hér um ræðir eigi heima í höndum einkaaðila.

Fulltrúar Félags íslenskra flugumferðarstjóra sem komu á fundi nefndarinnar bentu á að við það að velja hlutafélagaformið mundu samningar flugumferðarstjóra verða lausir og þeir jafnframt öðlast verkfallsrétt. Minni hlutinn telur að hér sé um grafalvarlegt mál að ræða sem skoða hefði þurft betur og því sé tekin óþarfa áhætta. Þá bentu fulltrúar félagsins einnig á það að hlutafélaginu verða falin stjórnsýsluverkefni en að mati þess er óheimilt að færa stjórnsýslu til aðila sem hafa einkaréttarlega stöðu. Minni hlutinn er á því að þetta sé eitt af því sem skoða hefði þurft betur en ekki vannst tími til þess í störfum nefndarinnar.

Þá telur minni hlutinn að samhliða þeim breytingum sem hér eru lagðar til hefði átt að horfa til fyrirhugaðrar stöðu mála á Keflavíkurflugvelli vegna brottfarar varnarliðsins. Ekkert er að finna í frumvarpinu um þau mál, þótt rétt hefði verið að fjalla um þau til að fá heildstæða mynd.

Bæði kom fram í umsögnum um málin og hjá gestum sem komu á fundi nefndarinnar að veruleg hætta væri á að væntanlegt hlutafélag færi að krefja flugrekendur í innanlandsflugi um aukin lendingargjöld og aukin gjöld fyrir flugleiðsögu. Minni hlutinn vekur athygli á því að kostnaður við innanlandsflug er nú þegar miklu hærri en tekjurnar af því. Aukinn kostnaður vegna flugleiðsögu og lendingargjalda mun því fara beint út í verðlagið og hækka bæði flugmiða og flutningsgjöld.

Virðulegi forseti. Undir þetta minnihlutaálit skrifa auk þess sem hér stendur, framsögumanns minni hlutans, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Guðjón A. Kristjánsson. Svo vek ég athygli á því að þarna vantar Önnu K. Gunnarsdóttur. Hv. þm. Jón Bjarnason sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni er sammála áliti þessu.

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni munum greiða atkvæði gegn hlutafélagavæðingu þeirri sem hér er um rætt en sitja hjá við breytinguna á frumvarpinu um Flugmálastjórn. Eins og kemur fram í nefndarálitinu sem ég hef hér farið yfir er um að ræða mjög margar hættur, til dæmis hvað varðar verkfallsréttinn og starfskjörin. Mér finnst tekin óþarfa áhætta með þessu.

Eitt í viðbót vildi ég nefna sem minnst er á í nefndarálitinu. Fram hefur komið að heildarkostnaður við innlenda flugsamgöngukerfið nam 1.448 millj. kr. árið 2005 meðan tekjur af sköttum og þjónustu voru 609 milljónir. Ríkisframlagið var þá mismunurinn, 839 millj. kr. Það er auðvitað sú tala sem verður að tryggja á komandi árum, ásamt með þeim hækkunum sem verða, frá ríkissjóði til að þetta fari ekki út í verðlagið eins og ég hef fjallað um, annars vegar flugmiða sem eru þegar allt of dýrir og eins farmflutningagjöld.

Þegar hlutafélagið fer að semja og þegar farið er að reka það er auðvitað ákveðin hætta á því að það vilji fá meiri tekjur. Þá höfum við enga tryggingu fyrir því, virðulegi forseti, að ríkisstjórn þess tíma vilji leggja meiri pening í þetta. (Iðnrh.: Nei, ...) Þannig getur þetta gerst. Þessi hætta er þá fyrir hendi.

Ég vil segja eitt, virðulegi forseti, að lokum, af því að ekki má tala of lengi um þetta mál, að mér fannst Félag íslenskra flugumferðarstjóra færa mjög mörg rök gegn þessari hlutafélagavæðingu. Ég vil segja það að lokum, virðulegi forseti, að við í minni hlutanum töldum rétt að fara þá leið að gera þetta að B-hluta stofnun. (Gripið fram í.) Ég ítreka það sérstaklega þó ekki sé flutt breytingartillaga um það. Það gafst einfaldlega ekki tími til að semja slíka breytingartillögu vegna þess að þá hefði þurft að búa nánast til nýtt frumvarp. En ég get þess hér, virðulegi forseti, að minni hlutinn hefði viljað fara þá leið að gera þetta að B-hluta stofnun.

Ég vil svo segja að lokum, virðulegi forseti, aðeins eitt í lokin. Ég get þó fagnað því að inn í þetta væntanlega hlutafélag eru ekki teknar lóðir undir Reykjavíkurflugvelli. Ég fagna því enda hygg ég að annars hefðum við ekki verið að ræða þetta nú hér á síðustu klukkutímum þingsins því þá hefði málið örugglega stoppað. Ég er þeirrar skoðunar að ríkið sem á þessar lóðir undir flugvellinum eigi að eiga þær áfram og við ætlum að nota þær undir flugvöll fyrir innanlandsflugið. Að mínu mati er ekkert á dagskrá að hann fari þarna úr mýrinni og það er ekkert á dagskrá að ríkið selji þetta sameiginlega land okkar allra Íslendinga í Vatnsmýrinni undir byggð í Reykjavík. Við þurfum þá að flytja flugvöllinn og ekkert er hægt að fara með hann annað en til Keflavíkur. En þar með er innanlandsflugið dautt að mínu mati því rekstrargrundvöllur Flugfélagsins hverfur. Menn mundu einfaldlega keyra til Akureyrar þó þeir mundu kannski fljúga til staða lengra í burtu. Þessu eina get ég því sérstaklega fagnað, virðulegi forseti, þ.e. að ekki skuli hafa verið tekið af eignum og þær settar inn í þetta væntanlega hlutafélag. (Gripið fram í.)