133. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2006.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:14]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Gott kvöld, góðir áhorfendur. Gott kvöld, ágætu þingmenn.

Það er ánægjulegt að vera komin hingað aftur til þings eftir nokkuð langt hlé sem átti sér líka heldur brattan aðdraganda í vor þegar ríkisstjórnin gat ekki lengur af sér borið hér í þinginu, sendi þingið heim svo hún gæti sjálf farið að lina sínar þjáningar og vanlíðan ýmissa ráðherra í ríkisstjórninni. Það er ánægjulegt að vera komin hingað aftur og takast á við þau verkefni sem bíða okkar í vetur.

Það er líka ánægjulegt að stjórnarandstaðan mætir nú til þings samstillt og kröftug, stjórnarandstaðan er einhuga í því að takast á við þjáningar ríkisstjórnarinnar, veita henni líkn frá þraut og skipta um ríkisstjórn eftir kosningar í vor.

Það er líka ánægjulegt að koma hér til þings núna í haust þegar gamlir draugar eru ekki lengur á sviðinu, hafa verið kveðnir niður eftir að hafa tekið allt of mikið rými í íslenskri þjóðmálaumræðu á undanförnum árum og áratugum. Þarna er ég að sjálfsögðu að vísa til hermálsins. Ég er að vísa til þess deilumáls sem hefur sett svip sinn á allt þjóðlífið í 55 ár og vonandi berum við gæfu til þess að takast á við þetta mál núna með nýjum hætti, grafa stríðsöxina sem hefur verið allt of áberandi í umræðunni á undanförnum 55 árum. Þetta hefur verið sársaukafullt deilumál og svikabrigsl hafa verið höfð uppi í áratugi vegna málsins.

Forseti okkar nefndi það í þinginu í gær að það væri viss hætta á því að nýtt mál yrði deilumál sem mundi skipta þjóðinni í andstæðar fylkingar á komandi árum, umhverfismálin og náttúruverndarmálin, og í því máli er viss hætta á að uppi verði svipuð svikabrigsl, svipaðar deilur og hafa verið um hermálið. Það má ekki verða. Sá sem tapar ef það gerist er náttúran og íslenskt samfélag. Í því eru engir sigurvegarar, það eru bara taparar. Samfylkingin hefur fyrir sitt leyti tekist á við þetta mál í sumar og hún mætti til leiks í haust með stefnu sem hún kynnti undir yfirskriftinni Fagra Ísland — vissulega stórt nafn en málið er líka mikils um vert.

Með þessari stefnumótun um hið fagra Ísland hefur Samfylkingin tekið þá skýru stefnu að sú stóriðjustefna sem ríkisstjórnin hefur fylgt á umliðnum árum og boðar á komandi kjörtímabili eigi ekkert erindi við framtíðina. Hún á ekkert erindi við framtíðina, nú er tímabært að stokka upp spilin, gefa upp á nýtt og gefa náttúrunni betri spil á hendi en hún hefur haft hingað til. Samfylkingin mun fylgja þessu máli fast eftir, þetta verður veganesti hennar inn í nýja ríkisstjórn.

En hvernig mætir ríkisstjórnin til leiks? Ríkisstjórnin mætir tómhent. Hún mætir tómhent, hún kemur að vísu með óleyst verkefni frá því í vor, gamla kunningja sem við ætlum að fara að takast á við hér í upphafi þingsins. Fjölmiðlamálið, byggðamálin og önnur slík mál. Hún hefur að vísu leyst eitt verkefni í sumar, það voru stólaskiptin. Það var verkefni sem ríkisstjórnin leysti í sumar. En að öðru leyti kemur hún eins og hún var í vor, þrotin að kröftum. Það er auðvitað ekkert sérkennilegt. Þessi ríkisstjórn hefur setið í 12 ár og sá sem ekki hefur komið því í verk á 12 árum sem hann ætlar sér hefur ekkert með það að gera að sitja lengur.

Í ræðu hæstv. forsætisráðherra áðan var aldrei minnst á orðið framtíð. Það kom aldrei fyrir og það er kannski ekkert sérkennilegt því þessi ríkisstjórn á ekki framtíð fyrir sér. Hún er auðvitað ekki alslæm og hún hefur ýmislegt gert sem hefur fært hluti til betri vegar, eðlilega. Engum er alls varnað. En hún hefur ekki staðið vörð um gildin í íslensku samfélagi. Hún hefur gefið markaðslögmálunum lausan tauminn en hún hefur ekki staðið vörð um gildin í íslensku samfélagi.

Þegar við förum á erlendan vettvang svörum við þeirri spurningu oft: Hvað er það að vera Íslendingur? Hvernig er sjálfsmynd Íslendinga, í hverju felst hún? Hún felst í því að vera hluti af litlu samfélagi þar sem fólk deilir kjörum hvert með öðru, örlögum og kjörum og er jafnvel talað um íslenskt samfélag sem stéttlaust samfélag. Við getum ekki talað þannig lengur. Við höfum líka talað um það að við lifum í samfélagi hreinleika, samfélagi þar sem ekki er mengun, samfélagi náttúruverðmæta, samfélagi þar sem við stöndum vörð um víðernin. Við getum ekki talað þannig heldur lengur. Við höfum líka talað um það á alþjóðavettvangi að við búum í samfélagi þar sem þjóðin hefur aldrei farið með vopn eða ófrið á hendur annarri þjóð. Við getum ekki heldur talað þannig lengur vegna þess að við berum siðferðilega ábyrgð á þeim hernaði sem núna stendur yfir í Írak. Styrkur þjóðarinnar og sjálfsmynd hefur beðið hnekki vegna aðgerða þessarar ríkisstjórnar. Það er sama hvort litið er til hugmynda okkar um jöfnuð sem ekki eru við lýði lengur, hugmynda okkar um hina herlausu þjóð, hina vopnlausu þjóð sem ekki fer með ófriði, sem ekki stenst lengur eða hugmynda okkar um mikilvægi íslenskrar náttúru sem hefur beðið mikinn hnekki á alþjóðavettvangi líka.

Galdurinn á bak við íslenskt samfélag er þessi hugmynd okkar um að við skiptum öll máli. Það er galdurinn að við höfum öll verk að vinna. Það sem við höfum lært í túninu heima er að okkur standi allar dyr opnar, að við eigum öll erindi hvert með sínum hætti. Þetta er galdurinn á bak við hina íslensku athafnamenn. Þeir hafa lært þetta í túninu heima rétt eins og við hin. Þeir fara utan með þá hugmynd að þeim standi allar dyr opnar. Þeir eru fóstraðir í samfélagi sem byggir á jöfnuði, sem byggir á því að allir skipti máli. En við getum ekki lengur talað um samfélag jafnaðar á Íslandi. Það hafa komið fram óyggjandi staðreyndir um það að ójöfnuður hafi farið vaxandi á Ísland. Þetta eru ekki bara tölur á blaði. Á bak við þessar tölur standa einstaklingar og samfélag. Vegna vaxandi ójafnaðar í íslensku samfélagi fá börn ekki þau tækifæri sem þeim ber. Vegna vaxandi ójafnaðar í íslensku samfélagi hafa afbrot farið vaxandi.

Ójöfnuður hefur líka áhrif á heilsufar. Ójöfnuður hefur áhrif á félagslega hegðun. Ójöfnuður hefur áhrif á vímuefnanotkun. Því skiptir þetta okkur öll máli. En ríkisstjórnin hefur engin áform um að takast á við ójöfnuðinn í íslensku samfélagi. Ríkisstjórnin hefur nefnilega lokið verkefni sínu. Og forsætisráðherra sem talar ekkert um það sem betur má fara, forsætisráðherra sem talar ekkert um framtíðina, það brennur ekki á þeim forsætisráðherra að vinna að umbótaverkefnum fyrir íslenskt samfélag. Hann hungrar ekki eftir breytingum. Hann er saddur, hann er fullmettur fyrir minn smekk. Ríkisstjórnin hefur lokið verkefni sínu, ríkisstjórnin á ekki framtíðina fyrir sér. Hér þarf að koma ný ríkisstjórn eftir næstu kosningar. Sú ríkisstjórn verður að takast á við ójöfnuðinn í íslensku samfélagi og við höfum bent á það í stjórnarandstöðunni hvernig takast þarf á við lífeyrismálin.

Við þurfum líka að skoða vaxtabæturnar sem leggjast þungt á barnafjölskyldur og fjölskyldur sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið. Við þurfum líka að takast á við barnabæturnar vegna þess að framfærslubyrði barnafólks, m.a. vegna kostnaðar við skólahald, er veruleg. Matarkostnaðurinn er líka mál sem við á þinginu þurfum að takast á við og Samfylkingin hefur sett fram skýrar hugmyndir um hvernig eigi að takast á við matarkostnað heimilanna. Tillögur Samfylkingarinnar í matarmálum munu hugsanlega verða til þess að ríkisstjórnin tekur sig nú loksins á eftir 11 ár í ríkisstjórn, eftir þrjár skýrslur um matarkostnaðinn og sjálfsagt álíka margar nefndir, og kemur nú fram með hugmyndir um hvernig ná megi niður matvælakostnaði heimilanna. Matvælakostnaður heimilanna skiptir ekki bara hverja og eina fjölskyldu máli heldur líka samkeppnishæfni íslensks samfélags. Í gær var haldinn fundur um samkeppnishæfnina og þar kemur fram að vöruverðið á Íslandi dregur úr samkeppnishæfni íslensks samfélags og stefna Íslands í landbúnaðarmálum hefur líka veruleg áhrif á samkeppnishæfni íslensks samfélags. Hvar stendur Ísland í þeim samanburði? Þarna voru borin saman 123 lönd. Og hvar var Ísland í röðinni þegar kom að landbúnaðarstefnunni? Við vorum í 99. sæti vegna þeirrar stefnu sem hér hefur verið höfð uppi í landbúnaðarmálum og hefur haft í för með sér verri kjör fyrir bændur, hátt vöruverð fyrir neytendur og flutning úr sveitum landsins yfir í þéttbýlið. Bændur hafa verið í kæfandi faðmlagi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og tímabært að bændur losi sig úr því faðmlagi og atvinnufrelsi verði innleitt í landbúnaði eins og öðrum greinum.

Virðulegur forseti. Við þurfum nýja ríkisstjórn sem tekst á við hagstjórnina. Við þurfum nýja ríkisstjórn sem innleiðir stöðugleika í íslensku hagkerfi og treystir undirstöður íslensks atvinnulífs. Við þurfum ríkisstjórn sem fjárfestir í menntun og mannauði því það er fólkið sem skapar verðmætin en ekki stjórnmálamennirnir sem koma heim í héruð og reyna að skaffa fólki atvinnutækifæri sem það er fullfært um sjálft ef það nýtur menntunar og fær tækifæri til þess. Við þurfum að móta stefnu í menntamálum sem gengur út frá því að allir geti lært, að allir skuli fá hlutdeild í menntun sem lífsgæðum. Við þurfum að takast á við heilbrigðiskerfið sem þróast stjórnlaust núna í allar áttir og við þurfum að takast á við auðlindirnar og náttúruverndarmálin þar sem ríkir fullkomin óreiða. Við þurfum að nútímavæða Stjórnarráðið og við þurfum að efla lýðræðið í íslensku samfélagi.

Fólkið sem gekk með Ómari niður Laugaveginn var ekki bara að mótmæla því sem er að gerast fyrir austan. Það fólk var líka að mótmæla þeirri hentistefnu, þeim skorti á lýðræði, þeim skorti á gegnsæjum vinnubrögðum sem einkennir stjórnarstefnuna. Við þurfum nýja ríkisstjórn, við þurfum ríkisstjórn frjálslyndis og jafnaðar. Við þurfum ríkisstjórn sem þorir að setja mál á dagskrá, sem þorir að leggja við hlustir, sem leggur áherslu á að rækta sérstöðu og styrk íslenskrar þjóðar. Í þannig ríkisstjórn viljum við samfylkingarmenn vera. — Góðar stundir.