133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

vaxandi ójöfnuður á Íslandi.

[10:03]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég óskaði eftir því að efnt yrði til umræðu um vaxandi ójöfnuð á Íslandi nú í upphafi þings vegna þess að m.a. í sumar hafa verið leiddar fram óyggjandi staðreyndir um það að sl. áratug, í tíð þessarar ríkisstjórnar, hefur staðið yfir linnulaus hernaður gegn jöfnuði á Íslandi. Þessar tölur komu m.a. fram á heimasíðu ríkisskattstjóra í sumar með hinum svokallaða Gini-stuðli sem sýnir vaxandi ójöfnuð. Ísland hefur verið að færast frá því að vera í hópi þeirra ríkja þar sem jöfnuður var hvað mestur fyrir tíu árum í hóp þeirra ríkja þar sem jöfnuður er minnstur, í hóp ríkja eins og Bretlands, Lettlands, Portúgals og Tyrklands svo ég tali um Evrópuríki.

Í dag skilur himinn og haf að þá á Íslandi sem eru tekjuhæstir og tekjulægstir. Á Íslandi eru þúsundir fjölskyldna með 3–3,5 millj. kr. í árstekjur. Á sama tíma eru hundruð fjölskyldna með tugi millj. í árstekjur. Fyrrnefndi hópurinn greiðir um það bil 23% af tekjum sínum í skatt, síðarnefndi hópurinn greiðir 15%. Af hverju skyldi þetta nú vera? Jú, það er vegna þess að síðarnefndi hópurinn, ofurlaunahópurinn, hefur umtalsverðar fjármagnstekjur. Ef fjármagnstekjur eru skoðaðar, og nú eru þetta aftur upplýsingar frá ríkisskattstjóra, þá er 1% hjóna, eða um 600 hjón, með um 60% allra fjármagnstekna. Þessar fjölskyldur eru að meðaltali með um 16,5 millj. kr. á ári í launatekjur og 95 millj. kr. á ári í fjármagnstekjur; 95 millj. kr. að meðaltali, þessar 600 fjölskyldur. Auðvitað eru þetta kannski ekki fastar tekjur á hverju ári, hópurinn er breytilegur en það eru ævinlega um 600 fjölskyldur í þeim hópi sem hefur þessar gríðarlegu tekjur.

Hið klassíska svar sjálfstæðismanna er að það skipti ekki máli þótt einhverjir auðgist mikið ef almenn auðlegð vex í samfélaginu. Vissulega hefur kaupmáttur almennt verið að aukast en það sem skiptir hins vegar máli er að bilið milli hinna ríku og hinna fátæku á Íslandi er stöðugt að breikka. Það er stöðugt að breikka og hefur verið að því undanfarin tíu ár. Ég fullyrði að þessi ójöfnuður er þegar farinn að skaða íslenskt samfélag umtalsvert og mun gera það enn frekar á komandi árum ef ekki verður gripið í taumana. Ójöfnuðurinn er fljótur að vinda upp á sig.

Gríðarleg auðæfi munu á næstu árum erfast milli kynslóða, auðæfi sem eru svo mikil að við höfum aldrei séð þess dæmi áður. Hinir ungu ríku sem munu vita það frá unga aldri að þeirra bíður auðlegð verða allt annar þjóðfélagshópur en hinir ungu fátæku. Reynsluheimurinn verður gerólíkur og ég held að við þurfum að hverfa aftur til upphafs síðustu aldar til að finna samsvörun við okkar tíma. Er það þannig samfélag sem við viljum? Þannig stéttskipt samfélag? Vegna þess að með auknum ójöfnuði eykst stéttaskiptingin í samfélaginu og þar með togstreita milli þjóðfélagshópa.

Börn eru mjög næm fyrir slíkum áhrifum. Ef einhver þjóðfélagshópur er næmur fyrir því þá eru það börn. Þau skynja fljótt stétt sína og stöðu, hvaða hópi þau tilheyra og umræðan á Íslandi um skólabúninga, sem kemur m.a. úr ranni Framsóknarflokksins sem á auðvitað þátt í þessum hernaði gegn jöfnuði í landinu, segir okkur að þessi ójöfnuður er farinn að setja mark sitt á umhverfi barna. Sú umræða er til marks um það. Við erum komin í umræðu um skólabúninga eins og í Bretlandi enda erum við að verða samfélag með svipuðum ójöfnuði og í Bretlandi. Ísland hefur verið að færast á afgerandi hátt frá hinu skandinavíska samfélagi sem er í meistaradeild og yfir til samfélaga sem sannarlega eru í annarri deild þegar kemur að samkeppnishæfni þjóða. Þetta hefur verið að gerast á Íslandi vegna aðgerða ríkisstjórnar landsins í skatta- og velferðarmálum. Það er kannski eins og að spyrja brennuvarga hvernig þeir ætla að slökkva elda en ég spyr nú samt forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins hvað hann hyggist gera til að bregðast við þeim mikla ójöfnuði sem er afleiðing af stjórnarstefnu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.