133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

vaxandi ójöfnuður á Íslandi.

[10:16]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Þegar við ræðum um ójöfnuð í samfélaginu vil ég beina sjónum að mismunandi aðstæðum barna og fjölskyldna þeirra. Evrópusambandið nefnir árið 2007 ár jafnra tækifæra. Félagsmálaráðuneytið hefur þegar tekið ákvörðun um fulla þátttöku í því verkefni og er undirbúningur þess þegar hafinn. Ég hef m.a. lagt áherslu á að í því starfi verði sérstaklega horft til mismunandi aðstæðna barna í samfélaginu, einstæðra foreldra og fjölskyldna þeirra og innflytjenda. Félagsmálaráðuneytið mun leita eftir samstarfi við ýmsa aðila um þetta verkefni, t.d. sveitarfélögin í landinu. Ég hef þegar ákveðið að skipa starfshóp sem ætlað er að greina stöðuna og ná utan um þá samfélagshópa sem búa hugsanlega við aðstöðu sem hamla eðlilegri þátttöku í samfélaginu frá degi til dags. Ég mun jafnframt óska eftir að skoðaðir verði möguleikar á því að gerð verði aðgerðaáætlun til að bæta stöðu barnafjölskyldna sem búa við lök kjör og mögulega skuldaaðlögun fyrir skulduga einstaklinga, t.d. vegna barnsmeðlaga. Það er algerlega óásættanlegt að börn alist upp við kjör sem hamla þroska þeirra og möguleikum á innihaldsríku lífi í velferðarsamfélagi okkar.

Á undanförnum árum hafa stjórnarflokkarnir gert ýmislegt sem miðar að því að bæta hag barnafjölskyldna og því verður haldið áfram. Einnig hefur margt verið gert til að bæta hag þjóðfélagshópa sem á því hafa þurft að halda. Allt hefur þetta miðað að því að vinna gegn ójöfnuði í samfélaginu. Hins vegar er ljóst að þessum verkefnum verður líklega aldrei lokið og alltaf má gera betur.

Virðulegi forseti. Efnahagsmál, velferðarmál og atvinnumál eru allt hliðar á sama þríhyrningi. Við megum aldrei missa sjónir á því að þessir þættir verða að verka vel saman. Það hefur verið leiðarljós ríkisstjórnarinnar sem hefur leitt til þess að meiri fjármunir renna nú til velferðarmála en nokkru sinni áður. Það hefur gefið okkur aukið svigrúm til að efla samhjálpina sem á sér svo djúpar rætur í íslenskri þjóðarsál.

Velferðarríkisstjórn okkar ætlar að halda áfram á þessari braut ekki síst í þágu barna og fjölskyldna þeirra.