133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:06]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Það er erfitt að leiðbeina hv. þingmanni hafi hann ekki séð þetta eftir þá daga sem hann hefur haft til að liggja yfir frumvarpinu, frá því á mánudaginn. En þess sjást víða merki í frumvarpinu að áætlunargerðin sé betri.

Hins vegar held ég að sá þáttur sem skipti enn meira máli í því sambandi sem hv. þingmaður nefndi og ég lagði raunar ríkari áherslu á það í ummælum mínum í sumar í framhaldi af skýrslu ríkisendurskoðanda, sé framkvæmd fjárlaga, að farið sé eftir því sem í fjárlögum og fjáraukalögum stendur. Þar held ég að við hv. þingmaður séum sammála um að meginþunginn eigi að vera. Það dregur auðvitað á engan hátt úr mikilvægi þess að áætlunargerðin sé í góðu lagi og í samræmi við það sem ætlað er að stofnanir framkvæmi á viðkomandi fjárlagaári.