133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:59]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt í þessu sambandi að rifja upp hvernig þetta hefur gengið fram. Á erfiðleikaárunum 1990 til 1994 og 1995 áttum við í miklum efnahagserfiðleikum. Það var bæði í tíð vinstri stjórnar Steingríms Hermannssonar og svo í fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar að menn töldu sig ekki eiga annarra kosta völ en að draga úr ríkisútgjöldum. Þá var farið út í það sem menn geta deilt um, að tekjutengja ýmsa þætti bóta. Það var gert.

Menn geta deilt um það hvort það hafi verið rétt eða ekki. Menn hafa verið mjög ósammála síðustu 10 ár um hvaða leið ætti að fara með barnabætur. Menn hafa deilt mjög um það og ég hef ekki vitað til að stjórnarandstaðan hefði um það samstöðu eða vissi hvern veg hún vildi. Við höfum margsinnis spurt þeirra spurninga: Viljið þið dreifa þessu jafnt á alla eða viljið þið tengja þetta við tekjur? Menn hafa alls ekki staðið saman um það.

Nú er sem betur fer rýmri fjárhagur og þess vegna er verið að koma til móts við vilja manna til þess að hjálpa börnunum sem eiga börn. Það eru börn sem eiga börn. Það er a.m.k. samstiga álit stjórnarþingmannanna að það sé rétt að gera það, það borgi sig. Ég vonast til að stjórnarandstaðan verði nokkurn veginn sammála okkur og samstiga í því á komandi árum.