133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[16:19]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Ég heyri að hv. þingmanni er órótt að heyra það að við ætlum að vinna saman, en ég er sannfærður um að það mun verða þjóðinni til heilla. Þetta er orðið gott hjá Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki, þeir hafa aukið misskiptinguna eins og hér hefur komið fram og enginn mótmælir, enginn, og þetta eru upplýsingar frá núverandi forsætisráðherra.

Það sem ég tel rétt að komi fram í þessari umræðu um misskiptinguna og hvernig flokkarnir hafa aukið hana, þrátt fyrir að taka til sín æ meira af skattfé almennings, er það að þegar þessi ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks var beðin um að reikna út hver misskiptingin yrði þegar öll skattaáform hennar yrðu komin til framkvæmda þá vildu menn ekkert reikna. Þeir vilja halda þessu leyndu. Þeir vilja koma þessu á og reyna að telja fólki trú um að ástandið sé ekki svona og fara síðan að telja upp hækkun hér og hækkun þar, á einhverjum barnabótum og svoleiðis.

Þegar dæmin eru skoðuð kemur það skýrt fram að ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks er ríkisstjórn aukinna ríkisútgjalda og aukinnar misskiptingar. Það er eitthvað sem Íslendingar verða að losna við.