133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[16:38]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður heldur áfram í umræðu um vaxtabætur að beita, ég vil bara segja, blekkingum. Vegna þess að staðreyndin er sú að tölurnar sem ég var með hér áðan sýna stöðuna á kjörtímabilinu. Þegar þetta er reiknað á núvirði, að raunvirði, er staðreyndin sú að á næsta ári, árið 2007 — það er rétt að það er verið að hækka örlítið milli ára, áranna 2006 til 2007 — frá árinu 2003 hafa þær að raunvirði verið skertar um 1 milljarð kr. Þetta eru staðreyndir, hæstv. forseti, sem ég legg hér fram og stend við.

Virðulegi forseti. Að krónutölu frá árinu 2003 til frumvarpsins eins og það stendur 2007 þá erum við að tala um skerðingu upp á 226 millj. kr. að krónutölu. Þá er það ekki reiknað upp.

Frú forseti. Þetta eru staðreyndir sem hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar á auðveldlega að geta gengið að. Ég veit að hann á annríkt og ég veit að án efa er verið að veita honum upplýsingar héðan og þaðan. En ég ætla þá að ráðleggja hv. þingmanni að fá einhverja til að skoða þetta mál sérstaklega fyrir sig áður en hann heldur því fram að vaxtabætur hafi verið að hækka á þessu kjörtímabili.

Frú forseti. Örlítið varðandi skólana. Það er bara staðreynd að þrátt fyrir að framlög hafi aukist þá hefur nemendum fjölgað. Það er fyrst og fremst vegna nemendafjölgunar sem framlögin hafa aukist. Það er ekki verið að auka framlög til þess að gera námið betra eða til að auka gæði þess. Nemendafjölgun hefur bara verið fylgt og meira að segja (Forseti hringir.) í þessu frumvarpi hér þá er það ekki einu sinni gert til hins ýtrastra eins og ætti að gera heldur er nemandaframlag skert.