133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

Stóriðjustefna og virkjanaleyfi.

[15:16]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna yfirlýsingu iðnaðar- og viðskiptaráðherra um að ekki eigi að hafa fyrirgreiðslu fyrir stóriðjuna. Þessi yfirlýsing hans hlýtur að þýða að sérstakir skattasamningar við stóriðju komi ekki til greina af hálfu ríkisstjórnarinnar enda sé eitthvað að marka orð hæstv. iðnaðarráðherra.

En ég spyr um rannsóknar- og virkjanaleyfin, hvort við megum vænta þess að fyrir kosningar úthluti ráðherra slíkum leyfum. Virkjanaleyfin í vatnsaflinu. Eins og ráðherrann veit skipta rannsóknarleyfin í jarðhitanum gríðarlegu máli. Um leið og þeim hefur verið úthlutað er búið að malbika veg inn á svæðin. Þá er búið að bora rannsóknarholur. Þá er búið að spilla hinni óspilltu náttúru þannig að það verður ekki aftur tekið.

Þess vegna er ákvörðunin um rannsóknarleyfi í raun ákvörðun um virkjanaleyfi og við hljótum að spyrja: Er fyrir formanni Framsóknarflokksins einhver staður á Íslandi, Kerlingarfjöll, Brennisteinsfjöll, Torfajökull, Gullfoss eða hver annar sem hann hefur ákveðið, tekið um það pólitíska ákvörðun, sem ekki (Forseti hringir.) komi til greina af hans hálfu að virkjaður verði?