133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

5. fsp.

[15:47]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Kjarni málsins er sá að ekkert samkomulag hefur verið gert eins og var ákveðið á ríkisstjórnarfundi fyrir tæplega tveimur árum að gert skyldi verða. Samkomulag sem leysti til framtíðar það menntunarfyrirkomulag sem skyldi verða í þessu samstarfsverkefni Fjölmenntar og Geðhjálpar. Það vantar núna 12 milljónir til að tryggja menntunarúrræðunum úthald í allan vetur og að sjálfsögðu vantar fyrst og fremst það að samkomulagið, sem kveðið var á um að gert skyldi verða fyrir tveimur árum, verði gert og leitt til lykta.

Hæstv. menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins er sökuð um ósannindi af framkvæmdastjóra Geðhjálpar, hún er sökuð um að ganga bak orða sinna, hún er sögð á harðahlaupum undan símaborði ráðuneytisins. Nú gefst hæstv. ráðherra tækifæri til að skýra mál sitt, koma með það svart á hvítu hvort samkomulagið verður gert annars vegar og hins vegar hvort Fjölmennt verði tryggðir fjármunir til að halda náminu úti.