133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

möguleg leyniþjónustustarfsemi á vegum stjórnvalda.

[16:36]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Umræðan um hugsanlega leyniþjónustu hér á Íslandi, hvort fylgst hafi verið með íslenskum borgurum af lögregluyfirvöldum — þá á vegum dómsmálaráðuneytisins, vænti ég — án dóms og laga, á að sjálfsögðu fullan rétt á sér. Það er mjög alvarlegt ef yfirvöld grípa til þess ráðs að fara að fylgjast með borgurunum og safna um þá gögnum án þess að hafa til þess réttarheimildir. Við hljótum öll að gera okkur grein fyrir því út í hvers konar fúafen við komumst sem þjóð ef slík vinnubrögð líðast.

Þau dæmi sem hér hafa verið nefnd í dag eru mjög gömul. Það er vitnað í grein eftir dr. Þór Whitehead sagnfræðing, ágæta grein sem um margt er mjög áhugaverð og athyglisverð. Mér finnst Þór fara mjög vel yfir þetta og lýsa því vel hvers konar andrúmsloft ríkti á þeim árum þegar njósnir af þessu tagi áttu sér stað, sem enn og aftur eru mjög alvarlegar.

Síðasta tilvikið sem Þór nefnir gerist árið 1968. Þá var ég að halda upp á fjögurra ára afmælið mitt með vinum mínum og vinkonum. Það er svo langt síðan. Ég verð að segja að þetta tilheyrir allt fortíðinni, þetta tilheyrir sögunni. Það er verið að skoða þessa hluti. Ég vænti þess að það verði gert með góðum og skilvirkum hætti og að við fáum allt upp á borðið. Við verðum að fá allt upp á borðið í þessum efnum og hreinsa andrúmsloftið.

Virðulegi forseti. Þegar við um daginn vorum að afgreiða í snatri frumvarpið um nefndina sem á að skoða þessi mál fór ég aðeins yfir það hvernig ég teldi að þetta ætti að fara fram. Ég tel mjög mikilvægt að öllum steinum verði velt við. Ég hefði gjarnan viljað sjá að menn hefðu skoðað lengra tímabil, hefðu byrjað á árunum fyrir seinna stríð. Þór Whitehead nefnir að sennilega hafi verið byrjað að fylgjast hér með einstaklingum þegar árið 1938. Ég hefði viljað leggja ár seinni heimsstyrjaldarinnar undir líka til að fá þetta allt upp á borðið. Ég hefði þess vegna gjarnan viljað fara nær okkur sjálfum í tíma, þ.e. ekki nema staðar við árið 1991 heldur halda jafnvel áfram.

Mér finnst líka mjög mikilvægt að það sem kemur út úr þessari rannsókn verði tekið saman og þeir einstaklingar sem urðu fyrir barðinu á þessu verði skilyrðislaust látnir vita og fái fulla innsýn inn í þau gögn sem um þá hefur verið safnað. Séu þessir aðilar látnir þá verði búnar til skýrar reglur um það með hvaða hætti þeirra nánustu eftirlifandi aðstandendur fái að vita um að njósnað hafi verið um þessa einstaklinga og hvaða gögnum hafi verið safnað.

Sé það svo að einhverjum viðkvæmum persónulegum upplýsingum hafi verið safnað um einstaklinga þá verði þessum upplýsingum skilyrðislaust eytt. Þeim verði eytt ef viðkomandi óskar þess áður en það sem eftir liggur, sem kannski er ekki af persónulegum toga, verður opnað fyrir almenning eða sagnfræðinga, nú eða hvort tveggja. Þarna held ég að við ættum að íhuga alvarlega hvernig við ætlum að taka á því sem hugsanlega mun koma í ljós eftir að rannsókn hefur farið fram.

Það er á margan hátt áhugavert að skoða reynslu nágrannaþjóða okkar í þessum efnum. Hér hefur verið minnst á að Norðmenn fóru í gegnum heilmikla rannsókn fyrir um það bil tíu árum. Svokölluð Lund-nefnd skoðaði þessi mál eftir að uppvíst varð í Noregi að norska ríkisstjórnin, þ.e. verkamannaflokkurinn norski, hefði borið ábyrgð á að stundaðar voru mjög umfangsmiklar njósnir um fólk, sérstaklega um þá sem voru yst til vinstri í norskum stjórnmálum, um margra ára skeið. Það kom í ljós að mjög margir höfðu orðið fyrir barðinu á þessu. Þar var starfandi leyniþjónusta sem virtist gersamlega hafa gengið af göflunum í starfsemi sinni. Þessi mál voru komin út í tómt rugl.

Það var mjög sársaukafullt fyrir norsku þjóðina að gera sér grein fyrir því að þessi starfsemi hefði átt sér stað, þ.e. að menn hefðu stundað þetta árum saman á bak við þjóðina. Ég vona svo sannarlega að við Íslendingar munum ekki þurfa að ganga í gegnum það sama og Norðmenn þurftu að gera. Norðmenn eru enn þá að vinna úr þessum málum og það hafa meira að segja verið greiddar skaðabætur. Norska ríkið hefur orðið að greiða skaðabætur til þeirra einstaklinga sem urðu fyrir þessum persónunjósnum eftir að í ljós kom að því fólki hafði hreinlega verið unnið tjón, til að mynda með því að komið hafði verið í veg fyrir að það hlyti eðlilegan starfsframa. Saklaust fólk varð fyrir barðinu á fordómum og tilefnislausum njósnum af hálfu stjórnvalda.

Ég vona svo sannarlega, virðulegi forseti, að við Íslendingar lendum ekki í því að eitthvað slíkt komi upp hér á landi en við hljótum öll að bíða spennt eftir því hvað sú rannsókn sem nú á að fara fram mun leiða í ljós.

Víkjum þá að framtíðinni, hún er einmitt mikilvægust. Hvaða stefnu ætlum við Íslendingar að taka í þessum málum í framtíðinni? Ég tel að við eigum að skoða alla möguleika í þessum efnum með opnum og fordómalausum hætti. Ég tel að við þurfum að koma einhverri slíkri starfsemi í fastan farveg. Við þurfum á einhvers konar innra eftirliti að halda til að fylgjast með glæpastarfsemi og jafnvel annarri starfsemi, hugsanlega hryðjuverkastarfsemi, landráðum eða öðru þess háttar.

Við þurfum að íhuga það mjög vel á næstu mánuðum hvernig við ætlum að koma þessu í fast form. Ég held að það sé meira unnið með því að hafa svona starfsemi í föstu formi og hafa þá ákveðið eftirlit með henni. Það er meira unnið með því heldur en að láta reka á reiðanum í þessum efnum.

Ég hef aðeins verið að skoða hvað Norðmenn hafa gert. Þeir eru að sjálfsögðu með leyniþjónustu, eftirlits- og öryggisþjónustu sem fer fram af hálfu hins opinbera, eins og öll okkar nágrannalönd. Öll okkar nágrannalönd hafa svona starfsemi. En þar er það norska Stórþingið sem kýs nefnd. Það er nefnd af hálfu norska Stórþingsins sem sinnir eftirliti með þessari starfsemi. Þingið gefur út almennar reglur um það hvernig starfsemi þessarar eftirlitsnefndar skuli háttað og síðan fylgist nefndin með því hvað gert er. Hefur fulla innsýn í allt sem gert er. Getur talað við alla þá sem starfa á vegum leyniþjónustunnar og fengið upplýsingar um það á hverjum tíma hvað þeir eru að gera. Getur fengið að sjá allan tækjabúnað, húsnæði og annað þess háttar. Nefndinni ber einnig að fara eftir því ef kærur berast frá borgurunum um að þeir hafi grun um að þeir hafi orðið fyrir einhverjum njósnum af hálfu slíkrar öryggisþjónustu. Nefndinni ber einnig að kanna allar ásakanir sem koma fram opinberlega um að starfsemi af þessu tagi hafi verið beitt gegn borgurunum.

Markmið nefndarinnar er einungis að fylgjast með starfseminni. Hún má ekki gefa fyrirskipanir til leyniþjónustunnar. Leyniþjónustan má heldur ekki ráðfæra sig við nefndina. Yfirvald þessarar nefndar er sem sagt norska Stórþingið.

Þarna sýnist mér, virðulegi forseti, í fljótu bragði að Norðmenn hafi komist eða náð að koma upp ákveðnu formi til að reka þessa hluti og sjá til að þeir fari almennilega fram.

Tími minn er á þrotum. Ég verð víst að láta staðar numið að þessu sinni.