133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

möguleg leyniþjónustustarfsemi á vegum stjórnvalda.

[17:01]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu sem hér hefur farið fram. Hún hefur verið afar athyglisverð.

Hæstv. ráðherra fékk átta spurningar sem beint var til hans um fortíðina, um það hvernig staðið var að því sem ríkisvaldið í reynd hefur verið sakað um, þ.e. að hafa beitt ólögmætu og kerfisbundnu eftirliti með fólki og það er spurt mjög ítarlegra og vandaðra spurninga um hvernig þessu starfi hafi verið háttað. En hæstv. ráðherra velur að svara engu, að ýta þessu undir teppið. En hér er um grundvallarumræðu að ræða. Hér er um það að ræða að rökstuddur grunur er um að ríkisvaldið hafi starfað utan laga og réttar. Um það snýst þessi umræða, þ.e. hvort ríki og ríkisvaldinu hafi verið beitt utan laga og réttar.

Hæstv. dómsmálaráðherra svarar því þannig að um sagnfræðilegt viðfangsefni sé að ræða, að það sé sagnfræðilegt viðfangsefni hvort mannréttindabrot hafi verið framin, hvort kerfisbundið eftirlit utan laga og réttar hafi verið framkvæmt o.s.frv. Hæstv. dómsmálaráðherra talar um að hér sé einvörðungu um að ræða sagnfræðilegt viðfangsefni. Ég held að þetta mál sé miklu stærra en svo. Það er mikilvægt að það verði leitt í ljós hvort starfsemi af því tagi sem hér um ræðir hafi verið stunduð utan laga og réttar þann tíma sem um ræðir og jafnvel allt til dagsins í dag, því að hér hefur ekkert verið hrakið um það sem fullyrt hefur verið að þessi starfsemi hafi farið fram heldur hafa þeir sem nú fylla flokk sjálfstæðismanna og hafa hér talað í þessari umræðu og víðar, fyrst og fremst reynt að beina sjónum að öðrum atriðum eins og framtíðinni sem nauðsynlegt er að ræða. En við verðum að gera upp fortíðina.

Athyglisverð var ræða hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar hér áðan því að umræðan snýst um það hvort ríkisvaldi hafi verið beitt utan laga og réttar. En hver eru svörin og hvernig er svarað? Jú, að hugsanlega hafi einhverjir einstaklingar sem ekki fóru með ríkisvald, sem höfðu tilteknar pólitískar skoðanir, haft samband við einstaklinga eða einhverja annars staðar en þar sem sjálfstæðismönnum þótti heppilegt. Um það snýst ekki umræðan. Umræðan snýst um það hvort ríkisvaldinu hafi verið beitt utan laga og réttar. Það hefur komið fram rökstuddur grunur um að svo hafi verið. Krafan er að þetta verði skoðað og það dugar ekki í þessari umræðu, virðulegi forseti, að benda á að menn ætli að gera (Forseti hringir.) eitthvað í framtíðinni. Menn verða að hreinsa upp fortíðina til þess að (Forseti hringir.) hugmyndir um framtíðina verði á einhvern hátt réttlætanlegar.