133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn.

[13:44]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það var vert að rifja það upp á alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum að einn af mikilvægustu þáttunum í málefnum þeirra sem eiga við andlega sjúkdóma að stríða snýr að menntunarmálum og aðgengi þeirra að menntun. Það kom því eins og köld vatnsgusa þau nöturlegu skilaboð frá ríkisvaldinu að samningurinn á milli Geðhjálpar og Fjölmenntar um menntunarmál geðsjúkra sé í uppnámi. Ég spurði hæstv. menntamálaráðherra um þetta hér í þinginu í gær og fékk ekki önnur svör en þau að hæstv. ráðherra ætli ekki að beita sér fyrir því að samkomulag náist og nægir fjármunir fáist til að tryggja áframhaldandi starfsemi Fjölmenntar, sem hefur frá árinu 2003 boðið upp á sérstaka kennslu fyrir geðsjúka og heilaskaðaða, en þar stunda hátt í 100 manns nám í vetur. Það vantar 12 millj. kr. til að tryggja að þetta nám geti haldið áfram eins og það er starfrækt núna. Þetta er gífurlega mikilvægt fyrir þá sem eiga við geðraskanir að stríða. Þetta er mjög einstaklingsmiðað nám sem hentar bæði þeim sem eiga eftir nokkra áfanga til að ljúka háskólaprófi eða eru staddir á byrjunarreit og eru rétt að læra að lesa. Þetta er gífurlega mikilvægt mál og það er áfall fyrir stöðu geðverndar á Íslandi og aðgengi fólks með andlegar raskanir að þetta nám skuli nú sett í uppnám. Það er hæstv. menntamálaráðherra ekki til sóma hvernig hún hefur komið fram í málinu. Hún er sökuð um svik og að hafa gengið á bak orða sinna. Hún svaraði ekki því sem ég þrásinnis spurði í gær, hvort hún ætlaði að beita sér í málinu og leysa þennan hnút. Því er ástæða til að endurtaka það í dag hvort ráðherrann sé sama sinnis og í gær. Auk þess spyr ég hvort hæstv. heilbrigðisráðherra sé til í að ganga í málið þar sem það kemur að henni líka og skera á hnútinn og tryggja það að Fjölmennt fái fjármuni til starfsemi sinnar og að þessu mikilvæga námi (Forseti hringir.) verði áfram haldið úti. Það væru jákvæð skilaboð á alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum.