133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:11]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að fagna sérstaklega ummælum hv. þm. Birkis J. Jónssonar, formanns fjárlaganefndar, um að hann leggi gífurlega áherslu á sjálfstæði fjárlaganefndar. Við vonum svo sannarlega að það boði eitthvað gott.

Hins vegar er nauðsynlegt að hv. þingmaður útskýri örlítið nánar fyrir okkur hvernig hann ætlar að gerbreyta vinnubrögðum í fjárlaganefnd vegna þess að til að hann sýni þetta og sanni þá verður hann að gera það. Hann agar ekki fjárlagagerðina öðruvísi en að gerbreyta vinnubrögðunum. Hann sýnir ekki aðhald varðandi framkvæmd fjárlaga nema gerbreyta vinnubrögðunum.

Nauðsynlegt er að hv. þingmaður svari einu ef hann hefur upplýsingar um það: Hvenær eigum við von á því að fá lokafjárlög fyrir árið 2005? Það er algerlega vonlaust fyrir fjárlaganefnd að gegna hlutverki sínu nema hún hafi nákvæmar upplýsingar um hver staða stofnana er í lok árs 2005, ef við eigum að geta unnið fjárlög fyrir árið 2007 og fjáraukalög fyrir árið 2006 vegna þess að þá stöðu þurfum við að fá. Við þurfum líka að fá áætlaða stöðu í lok ársins 2006 ef við ætlum að láta fjárlög fyrir árið 2007 vera fjárlög fyrir árið 2007 og þá fáum við að sjá allt önnur fjáraukalög fyrir árið 2007 en við horfum upp á varðandi fjáraukalög fyrir árið 2006 sem eru í raun er hluti af fjárlögum margra ára aftur í tímann. Það elsta sem ég man eftir er árið 2003 og það er auðvitað algerlega á skjön við fjárreiðulög, sem ég vona að hv. þingmaður sé búinn að lesa kvölds og morgna alveg frá því að hann varð formaður fjárlaganefndar, vegna þess að það hlýtur að vera meginmarkmið þingmannsins á þessu fyrsta starfsári sínu, hugsanlega eina, sem formaður fjárlaganefndar að farið sé eftir þeim lögum. Þá hefur hann að sjálfsögðu unnið töluverða rós í hnappagat sitt og ég vona svo sannarlega að hv. þingmaður hafi þetta að markmiði sínu og því get ég lofað hv. þingmanni að það mun ekki frekar en fram að þessu standa á fulltrúum minni hlutans í fjárlaganefnd að aðstoða hv. þingmann við að sýna sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ekki hefur veitt af fram að þessu að aðstoð sé veitt í þeim efnum.